Monday 3 September 2012

Á músaveiðum


Mér er minnistæð helgarferð sem ég og Magga vinkona fórum í sumarbústað foreldra hennar vetur einn fyrir silljón árum síðan. Þegar við komum að bústaðnum bað Magga mig um að fara inn og kanna músagildrurnar fjórar sem þar voru og skutla þeim í ruslið ef þar væru mýs. Mér fannst þetta nú auðvelt verk og skildi ekkert í henni að geta ekki farið inn sjálf til að leita að dauðum músum - iss piss! Þegar inn var komið kom í ljós að engar mýs voru í gildrunum en ein hafði augljóslega smollið aftur. Við nánari athugun kom í ljós að mús hafði lent í gildrunni en aðrar mýs höfðu gætt sér á líkinu (oj!). Það eina sem var eftir af músinni var rófan sem lá við hliðina á gildrunni.

Eftir þessa upplifun hef ég alltaf álitið að ekkert sem tengdist músum, músagildrum og músaveiðum gæti komið mér úr jafnvægi. Fyrr en núna síðasta fimmtudag. Tvö barnabörn Donnu kirkjuvarðar, Ella og Jake, komu í heimsókn til ömmu í vinnuna og voru eftir hjá henni á meðan móðir þeirra þurfti að skreppa frá. Ella, þriggja ára, var að leika sér að dóti í sunnudagaskólaherberginu þegar hún kallaði á ömmu sína og sagði: Amma, hvað er þetta? Og viti menn, hún hafði komið auga á litla mús sem hljóp yfir gólfið í safnaðarheimilinu. Við Donna fórum á stúfana og eltum músina, hún hljóp inn í eldhús og faldi sig undir ísskápnum og síðan eldavélinni. Ég komst að því á þessu augnarbliki að ég gæti ekki með nokkru móti drepið blessaða músina með kústskafti eða öðru tóli, mér var það bara gersamlega ómögulegt. Ég reyndi að elta hana með litla fötu í hendi, en tókst auðvitað ekki að skella henni yfir hana. Músin endaði inni í hitakompunni, við lokuðum dyrunum, settum dúk undir dyrnar svo hún slyppi ekki út og veltum fyrir okkur hvern við ættum að hringja í til að veiða músina. Þá bar þar að eina úr söfnuðinum, Twyllu, og hún skaust út í búð til að kaupa músagildrur. Þegar músagildrurnar voru komnar í hús var annar úr söfnuðinum, Gary, mættur á svæðið, ég og Gary settum bita af kleinuhringi í fjórar gildrur og stilltum þeim upp - tveimur í hitakompunni og tveimur í eldhúsinu. Nú var bara að bíða og sjá hvað myndi gerast. Eftir um tvo klukkutíma ákváðum ég og Donna að kanna gildrurnar. Engar mýs voru í gildrunum í eldhúsinu en í einni í hitakompunni var litla brúna músin okkar. Til allrar óhamingju var hún ekki dauð. Þá fyrst fékk ég hjartaáfall, því ég vissi að við þyrftum að drepa hana svo hún þjáðist ekki að óþörfu. Og ég bara gat alls ekki kálað blessaðri músinni! Donna er auðvitað miklu meiri nagli en ég og sló hana í höfuðið með fægiskóflu. Hún iðaði ekki meira, sú litla. Síðan sópaði Donna henni (og gildrunni) upp í fægiskófluna og henti í ruslið. Ég verð að segja að þetta ævintýri sannaði fyrir mér að ég er alger kjúklingur þegar kemur að svona málum. Ég bara get ekki drepið dýr! Ég get varla drepið kóngulær, um leið og kvikindin fara yfir ákveðna stærð þá bara get ég ekki kálað þeim. Kjúklingur eða dýrlingur? Ja, það er spurning!

Sagan er ekki búin því við létum hinar þrjár gildrurnar vera ef fleiri mýs leyndust í kirkjunni. Á sunnudagsmorgun mætti ég snemma og með mér var Jennifer sem fékk far hjá mér. Við læddumst báðar í eldhúsið og í hitakompuna til að kanna gildrurnar. Og já, ein steindauð mús var í gildrunni í hitakompunni. Jennifer sópaði henni upp á pappa og henti í ruslið. Enn og aftur kom kjúklingurinn upp í mér svo ég naut aðstoðar annarra við að henda leifunum. Við sáum á gildrunum í eldhúsinu að beiturnar höfðu verið étnar á þeim báðum, án þess að gildran hrykki aftur. Við settum því nýjar beitur í gildrurnar og komum þeim fyrir, einni í eldhúsinu og einni í hitakomunni. Það verður mitt að kanna þær í fyrramálið því Donna mun koma aðeins seinna en venjulega. Ef ég finn mús í gildru þá neyðist ég víst til að skíta út hendur mínar - enda ekki hægt að vera svona kjúklingur endalaust! Við sjáum til, vonandi er orðið músalaust í kirkjunni! Læt ykkur vita hvernig fer í næsta pósti :)



3 comments:

  1. Skil þig fullkomlega, ég á mjög erfitt með drepa nokkur dýr, hvaða sort og stærð sem þau eru

    ReplyDelete
  2. íslenskar mýs eru sólgnar í lakkrís og marsipan (appalló eða sambó) ef það hjálpar eitthvað ;)

    ReplyDelete
  3. Gaman að fylgjast með þér vinkona

    ReplyDelete