Wednesday 24 October 2012

Hrekkjavaka, snjór og hús (samt ekki snjóhús :)

Snjórinn er kominn í Prince Albert. Kominn til að vera. Að öllum líkindum verður hann hér þangað til í mars eða apríl, jafnvel lengur. Hann kemur ekki og fer, eins og heima á Íslandi. Hann heldur sig á staðnum allan veturinn hér um slóðir. Eins gott að fara að huga að vetrarskónum, úlpunni, húfunni og vettlingunum. Frostið hefur enn ekki náð að bíta sig við bæinn en sennilega er stutt í það. Þá fyrst fer kerlingin að skjálfa.

Fyrir utan Messiah Lutheran Church þriðjudaginn 23. október 2012

Í næstu viku, miðvikudaginn 31. október, er svo hrekkjavakan. Nú þegar hafa margir skreytt húsin sín með alls kyns hrekkjavökudóti, meðal annars ég. Mér fannst nú mikilvægt að setja mig inn í alla góða kanadíska siði, og að skreyta hús sitt með hrekkjavökudóti er einn þeirra. Um helgina (helgina fyrir hrekkjavöku) skilst mér að venjan hjá mörgum sé að halda grímupartý, bjóða í mat og þess háttar. Sjálf fer ég í matarboð hér í blokkinni minni á föstudagskvöld. Þá er öllum boðið í kalkúnaveislu (enn ein kalkúnaveislan þetta haustið!). Hér sjáið þið hrekkjavökudótið mitt:

Hrekkjavaka á Einu og Hálfu Stræti Vestur

Ljósin í bænum

Þess má geta að þetta er plast grasker, ekki ekta. Það er rafhlöðuknúið og skiptir litum :)

Tvö púða grasker

Grænn Frankenstein - ekkert svo afskaplega óhugnarlegur, greyið

Appelsínugula graskeraljósaserían á svölunum

Það er nefnilega það. Konan er orðin skreytingaóð. Bíðið bara þangað til jólin koma. Þá fáið þið að sjá þvílíka ljósasjóið! :)

Þar síðustu helgi var opið hús í raðhúsalínunni þar sem framtíðarheimilið mitt er. Tvö hús voru tekin í notkun um miðjan mánuðinn og áður en íbúarnir fluttu inn var opið hús fyrir hina sem bíða, svona til að sýna okkur hvernig þetta verður. Samkvæmt leigusölunum verður íbúðin mín líklega tilbúin í byrjun janúar, ef allt gengur vel. Ég hlakka sannarlega til! Hér fáið þið að sjá myndir af íbúð/húsi númer 31, mitt verður númer 19 (eins og æskuheimilið hið forna :).

Fataskápurinn í svefniherberginu

Þvottahúsið - þvottavél og þurrkari, leigt með íbúðinni!

Sturtan - ekkert baðkar, því miður

Baðherbergið


Dökk mynd af stofunni - stór gluggi og svalahurð. Í minni íbúð er útsýni yfir tré og náttúru.
Ég sé mun sjá yfir í gamlan kirkjugarð. Það finnst mér notaleg tilhugsun :)

Útidyrahurðin

Bílskúrinn - innangengt frá íbúðinni

Húsið að utan

Eldhúsið

Öll eldhústæki fylgja, líka örbylgjuofn!

Fínasti skápur :)

Og svo auðvitað nokkuð stór ískápur - ekki veitir af!

Nú bíður konan auðvitað spennt eftir flutningum. Þó vil ég auðvitað nefna að mér líður mjög vel í blokkinni, fólkið er afskaplega vinalegt og íbúðin mjög þægileg. Verð þó að viðurkenna að ég hlakka til að fara að nota mín eigin eldhúsáhöld og annan búnað sem nú situr sem fastast í kössum.

Þá held ég að nóg sé komið í þetta sinnið - njótið vetrarins!

Friday 19 October 2012

Stungið í steininn

Ég sat í fangelsi á fimmtudaginn. Tveir lögregluþjónar mættu í kirkjuna árla morguns, settu prestinn í handjárn og fóru með hann beint í steininn.


Fangelsið var að vísu staðsett á frekar óvenjulegum stað, í miðri verslunarmiðstöð, en fangelsi var það engu að síður. Presturinn var færður frammi fyrir dómarann og ákærur gegn honum voru lesnar upp: Viðkomandi er sökuð um að  hafa flutt íslenskt veðurfar með sér til Kanada, og að gleyma að horfa yfir öxl sér áður en hún skiptir um akrein þegar hún ekur bifreið. Dómarinn spurði: Sek eða saklaus? Og ég svaraði: Sek. En jafnframt lét ég fylgja að veðurfarið sem ég tók með mér var það góða, ekki slæma, og svo lofaði ég bót og betrun hvað aksturinn varðaði. Tryggingagjaldið var 500 dollarar. Ég reyndi að fá dómarann til að lækka það með því að syngja Hafið bláa hafið fyrir hann en hann sagðist ekki hafa skilið textann, ég gæti hafa verið að syngja níðvísu um hann! svo hann hækkaði tryggingargjaldið í 1000 dollara!

Þá var ekkert annað hægt í stöðunni en að hringja í velunnara og safna peningum fyrir gjaldinu. Fanginn settist niður og byrjaði að hringja í fullt af fólki sem hann þekkti, þá auðvitað aðallega úr söfnuðinum. Blessað fólkið vildi auðvitað klerkinn lausan úr fangelsi svo það tók ekki langan tíma að safna þúsund kallinum.

Pappírsvinnan var hins vegar annað og meira mál. Þetta endaði með að klerkur sat í 2 klukkutíma í steininum en skemmti sér nú bara alveg ágætlega.

Góðu fréttirnar eru þær að Kanadíska krabbameinsfélagið fær allan ágóðan af þessu. Þetta verkefni er búið að vera í gangi hjá þeim í mörg ár og fólk um alla Kanada þekkir til þess. Þið verðið endilega að koma þessari hugmynd til þeirra á Íslandi, ég er viss um að krabbameinsfélagið myndi safna heilmiklu með þessari aðferð.

Saturday 13 October 2012

Matarbankinn í söfnunarherferð

Nýja bílprófið kom að góðum notum í dag, laugardag. Við Belinda (æskulýðsleiðtoginn í kirkjunni) fórum með nokkrum krökkum úr æskulýðsfélaginu í Matarbankann (Food Bank) í bænum og tókum þátt í allsherjar söfnun ásamt fullt af fólki á öllum aldri. Söfnunin var skipulögð þannig að þátttakendum var skipt niður í hópa, innan hvers hóps voru nokkrir sem óku bílum og nokkrir sem hlupu á milli húsa. Í okkar hópi voru þrír á bíl og 6 gengu í hús. Verkefnið var vel auglýst í bæjarfélaginu svo margir höfðu sett matarpoka fyrir framan húsin sín sem við tókum og settum í bílana. Hjá öðrum bönkuðum við og flestir (sem voru á annað borð heima) gáfu eitthvað til bankans. Það er skemmst frá því að segja að við sneisafylltum þrjá bíla af mat á aðeins þremur tímum. Þegar við vorum svo búin að skila af okkur matnum gæddum við okkur á vel smakkandi pizzum.

Dagurinn var sannarlega skemmtilegur. Okkur var vel tekið af nánast öllum (nema þeim sem við vöktum árla í morgun! :) og það var gaman að sjá hversu áhugasamt unga fólkið var. Svona viðburðir eru víst algengir í bæjarfélaginu og ég er strax farin að hlakka til næsta skiptis.

Um kvöldið var svo fjölskyldukvöld í kirkjunni þar sem barnafjölskyldum var boðið að horfa á nýjustu Veggie Tales teiknimyndina, og einnig var boðið upp á föndur og snakk fyrir börnin. Yndisleg kvöldstund. Hér í norður Ameríkunni er sannarlega margt skemmtilegt að gerast og dagarnir líða hratt. Á næstu grösum er svo hrekkjavakan og auðvitað er ég búin að kaupa fullt af alls konar drasli til að setja í gluggana og skreyta. Það ætla ég að gera á mánudaginn og taka nokkrar myndir til að sýna ykkur.

Ég leyfi einni mynd að fylgja með þessu bloggi af krökkunum sem tóku þátt í matarbankasöfnuninni í dag. Ef þið skoðið myndina vel þá getið þið séð hrúguna af matarpokum fyrir aftan þau.



Saturday 6 October 2012

Hrokafulla íslenska bílastelpan

Nú þegar niðurstaða er komin í málið þá hef ég ákveðið að tjá mig um það. Hvaða mál?? Róleg, kæra hjörð - þið komist fljótt að því.

Eins og glöggir blogg-lesendur muna þá minntist ég á við upphaf veru minnar hér í Kanada að ég þyrfti að fá nýtt ökurskírteini í Saskatchewan fylki. Ég fékk að vita að íslenska skírteinið mitt væri aðeins gilt í þrjá mánuði og innan þess tíma yrði ég að taka skriflegt og verklegt ökupróf. Hvílík vesen! Konan er búin að vera með ökupróf í 24 ár og þarf að taka það aftur hér í Prince Albert! Bull og vitleysa!

Þessi tvö próf lágu svo eins og ferlíki á bakinu á mér í um rúman mánuð. Þá ákvað ég að láta til skara skríða og taka skriflega prófið. Ég játa fúslega að ekkert hér í Kanada olli mér eins miklum áhyggjum eins og þetta blessaða ökupróf! Sem betur fer gekk það skriflega mjög vel. Ég sveif í gegn og sjálfstraustið óx á ný. Í kjölfarið skráði ég mig í verklega ökuprófið nokkrum dögum síðar, full öryggis um að ég myndi nú fljúga í gegnum það líka. Því miður gerði ég mér ekki grein fyrir, þrátt fyrir að hafa lesið ökubókina fram og tilbaka, að þau hér í Kanada gera ýmsa hluti öðruvísi en við á Íslandi. Fyrir það fyrsta þá eru engar línur á götunum sem segja til um hvar á að stoppa við stöðvunarskyldu. Viðmiðið er að fara ekki framar en gangstéttarnar eða stöðvunarskyldan. Vissi íslenska konan þetta? Nei. Í öðru lagi þá eru þeir afskaplega uppteknir af hinu svokölluðu "sholder check" þegar skipt er um akgrein eða tekin beygja til að fyrirbyggja að blindi punkturinn verði til trafala. Í þriðja lagi þarf ökumaður hér að hafa í huga að ef beygt er til vinstri yfir á tveggja akreina veg þá áttu að fara á vinstri akgrein. Ef þú beygir til vinstri inn á tveggja akreina einstefnugötu þá verðurðu að fara á vinstri akreinina, mátt alls ekki fara á þá hægri. Ef þú beygir út af tveggja akreina einstefnugötu til vinstri þá verðurðu að aka eins langt til vinstri og þú getur áður en þú beygir. Ef þú tekur hægri beygju inn á tveggja akreina götu þá verðurðu að fara á hægri akreinina þó að enginn bíll sé á vinstri akrein. Vissi íslenska konan þetta? Ónei. En sú sjálfsörugga mætti nú samt í verklega prófið, næstum viss um að hún myndi slá í gegn.

Prófdómarinn var miðaldra maður, mjög almennilegur, sem sagði ekkert á meðan prófinu stóð nema vísa mér til vegar. Mér fannst mér ganga rosalega vel. "Parallel parking" er mjög nauðsynleg geta hvers ökumanns í Ameríkunni og það var nú ekkert mál fyrir hana mína. Piece of carrot cake! Þegar ég svo bakkaði í stæðið við prófstöðina (alveg fullkomlega) sagði prófdómarinn við mig: „Fórstu ekki í neinn ökutíma áður en þú komst til mín?" „Nei," svaraði ég. Hann sagði: „Það sést. Ef ég væri að taka próf á Íslandi þá þyrfti ég að fara í ökutíma fyrst því ég þekki ekki reglurnar þar. Nú skalt þú fara í tíma hjá kennara einu sinni til tvisvar og koma svo aftur til okkar. Taktu þennan miða (hann rétti mér miða), láttu kennarann fá hann og hann mun sjá hvað þú flaskaðir á."

Það er skemmst frá því að segja að ég var gersamlega niðurbrotin eftir þetta. Sjálfstraustið brotnaði í þúsund mola og hrokafullu íslensku bílastelpunni leið eins og gólftusku á eftir. Ég, þessi líka frábæri ökumaður og mótorhjólakona, féll á verklegu ökuprófi! Þvílík skömm!

Eftir tvo daga var ég búin að jafna mig, kyngja stoltinu og lúta í duftið. Ég hringdi í Ökuskóla Bev og pantaði tíma. Bev er yndisleg kona sem kenndi mér á kerfið hér í Saskatchewan. Ég fór tvisvar til hennar og pantaði svo aftur tíma í verklegt próf. Nóttina á undan svaf ég að ég held í tvo tíma, ég var svo stressuð.  Nú á föstudaginn mætti ég svo skjálfandi, algerlega viðbúin því að falla og þurfa að taka prófið í þriðja sinn. Prófdómarinn í þetta sinnið var maður á miðjum aldri, afskaplega kjaftaglaður og lipur. Á meðan prófinu stóð kjöftuðum við allan tímann, hann spurði um Ísland og sagði mér frá sjálfum sér. Ég átti fullt í fangi með að fylgjast með og gera rétt! Að prófi loknu sneri hann sér að mér og sagði. „Þetta var alveg frábært hjá þér, þú gerðir allt rétt. Venjulega þurfa þau sem fá ökupróf hér í fyrsta sinn, hvort sem um er að ræða unga eða eldri ökumenn, að endurnýja skírteinið eftir eitt ár, en ég ætla að láta þig hafa skírteini fyrir "vana ökumenn"."

Það verð ég að segja að svo þungu fargi var af mér létt eftir þetta að mér leið eins og ég hefði misst 20 kg! Nú er sú íslenska komin með löglegt Saskatchewan skírteini og þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu lengur. Það eina sem ég á eftir núna er að taka mótorhjólaprófið. Já, ég veit - it sucks! Ég er þegar búin að skrá mig í það skriflega því ég vil ljúka því af. Verklega prófið get ég ekki tekið fyrr en í vor þegar ég hef eignast mótorhjól. Nú hef ég lært af reynslunni - ég mun panta einn til tvo ökutíma hjá mótorhjólakennara til að undirbúa mig fyrir prófið - það megið þið bóka!

Þó að ég hafi í upphafi verið mjög svekkt yfir að þurfa að taka próf er ég afskaplega þakklát fyrir að hafa gert það. Ég lærði alveg heilan helling! Núna þegar ég keyri um göturnar þá er ég alltaf að spá í hvað ég er að gera og hvað það skiptir miklu máli að gera hlutina rétt. Ég er mjög meðvituð um alla aðra ökumenn í kringum mig, hvað þeir eru að gera rétt og hvað vitlaust. Þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að við þurfum öll að kíkja til ökukennara á svona 20-25 ára fresti til að fríska upp á kunnáttuna. Sigga mín, kæra vinkona - ég panta tíma hjá þér eftir 20 ár!

Monday 1 October 2012

Hugmyndaríkur æskulýður (og svo miklu meira)

Ég sagði ykkur frá því fyrir nokkru að ég fór á æskulýðsmót í ágúst Saskatoon með 12 unglingum úr Messiah kirkjunni. Nú um helgina var guðsþjónusta í kirkjunni sem þessir krakkar sáu um ásamt mér og öðrum æskulýðsleiðtoga. Við byrjuðum undirbúninginn fyrir um tveimur vikum og hittumst alls þrisvar. Ég var aldeilis undrandi á þessum fundum yfir ótrúlegu hugmyndarflugi þessarra frábæru krakka. Þau skipulögðu allt sjálf, spiluðu undir og leiddu sönginn, prédikuðu, gerðu kynningarvídeó og barasta allt saman. Mitt hlutverk í guðsþjónustunni var einfalt: Ég spilaði á gítar :) Ég segi með sanni og án þess að ýkja að ég hef aldrei áður undirbúið æskulýðsguðsþjónustu með svona flottum hópi. Ég hlakka til að vera með þeim í æskulýðsstarfinu í vetur. Umsjón með því hefur hún Belinda, frábær leiðtogi sem kom með okkur til Saskatoon. Já, það verður stuð hjá okkur í vetur! :)
Hópurinn frábæri - öll í stuttermabolum sem þau sjálf máluðu á. Ef þið skoðið myndina vel þá sjáið þið glitta í höfuðið á mér þarna bakvið :)


Fyrir viku síðan, mánudaginn 24. september, kom dótið mitt loksins frá Íslandi. Það tók ekki nema tvo mánuði - ekki nema! Nú er allt í kössum hjá mér. Sumir eru inni í íbúðinni, aðrir í geymslu sem er inn af svölunum. Kíkið á:



Nú get ég auðvitað ekki beðið eftir því að íbúðin mín verði tilbúin. Ég er búin að taka nokkrar myndir í viðbót af framkvæmdum við raðhúsin. Mér er sagt að nokkrar verði teknar í notkun núna í október og að framkvæmdirnar séu á undan áætlun. Það eru auðvitað alveg dásamlegar fréttir! Ég set því markið á janúar og vona það besta. Nýjustu myndir af framkvæmdum:




Veðrið er búið að leika við okkur hér í Prince Albert. Um helgina fór hitinn í 25 gráður! Heimafólk segir þetta óvenjugott veðurfar miðað við lok september. Hitastigið þessa vikuna mun þó lækka þó nokkuð, einnig er spáð rigningu. Ég notaði því tækifærið í dag, mánudag, til að taka boði eins safnaðarmeðlims, Don Moriarty, sem fyrir nokkru síðan bauð mér að hjóla á mótorhjólinu sínu. Ég hefði auðvitað getað tekið þessu góða boði miklu fyrr en mér leið einhvern veginn ekki vel með það, að hjóla á annarra manna hjóli um byggðir Kanada. En ég lét slag standa í dag og fór í hjólatúr. Það get ég sagt ykkur, kæru vinir, að ég gerði mér bara alls ekki grein fyrir hversu mikið ég saknaði þess að hjóla! Ég hjólaði um 50 km út fyrir bæinn, heimsótti vinkonu hér í bæ, krúsaði um bæinn og lét mér líða vel í 16 stiga hitanum sem lá yfir öllu. Ég klæddi mig eins og ég er vön að klæða mig heima og ég var alveg að kafna úr hita! Áður en ég kaupi mér hjól á næsta ári þarf ég líka að fjárfesta í léttari mótorhjólaklæðnaði, það er nokkuð ljóst! Gripurinn milli fóta minna í dag var Honda Goldwing, einn með öllu (GPS, Cruise Control, útvarpi, hita í sæti og handföngum - og bara alles!). Hér sjáið þið fákinn:




Flottur litur :) Hver veit nema ég eigi eftir að prófa þetta flotta hjól aftur. Framundan er margt skemmtilegt, næstu helgi er þakkargjörðarhátíð í Kanada, mánuði fyrr en í Bandaríkjunum. Nóg að gera við undirbúning guðsþjónustu. Síðan verð ég líka með hjónavígslu á laugardaginn. Alltaf gaman í henni Kanödu :)