Sunday 16 September 2012

Gleðistundir

Það skemmtilegasta við prestsstarfið er að vera með fólki á gleðistundum í lífi þess. Og ekki er verra að fá að upplifa nokkrar slíkar sjálf, svona af og til. Þannig hafa undanfarnar vikur verið hjá mér. Samansafn ýmis konar gleðistunda. Mig langar að deila nokkrum þeirra með ykkur.

Ég hef upplifað margar "ífyrstaskipti" stundir undanfarið. Eitt verkefni safnaðarpresta hér fyrir westan er að heimsækja sóknarfólk sem af einhverjum ástæðum kemst ekki til kirkju og gefa því altarissakramentið. Því hef ég ekki kynnst áður í starfi. En mikið var nú gleðilegt að taka rúntinn út um allan bæ og kíkja við hjá þeim fjölmörgu sem þiggja þessa þjónustu. Ég mætti einungis þakklátu og kærleiksríku viðhorfi hjá þessu fólki og þrátt fyrir að hafa verið þó nokkuð lúin í lok dags þá var sinnið sannarlega sælt. Nú er ég búin að koma rútínu í vinnuferlið, hver einasti miðvikudagur fer í heimsóknir að einhverju tagi til safnaðarfólks. Þetta finnst mér vera ánægjuleg nýjung í starfi hjá mér.

Ég var svo heppin að fá að gefa saman brúðhjón í fyrsta skipti í gær, laugardag. Þetta var svona "eitt með öllu" brúðkaup, um 150 gestir og í engu til sparað. Brúðarmeyjarnar voru 6 talsins (að meðtaldri heiðurmærinni, maid of honor), og sveinarnir 6 líka (að meðtöldum svaramanni brúðgumans (best man). Já, þetta var svolítið yfirdrifið þarna við altarið. Ég játa að ég hló svolítið innra með mér svona fyrirfram þegar ég frétti að þetta ætti að vera svona, en þegar allt kom til alls þá var þetta bara nokkuð flott og skemmtilegt með þessum ameríska blæ. Margt annað var öðruvísi, brúðhjónin fluttu heitorð sín á milli, með mig sem hjálpara (repeat after me:). Hjónavígsluskýrslurnar voru undirritaðar í athöfninni sjálfri, undir lokin (tónlist leikin á meðan) og svo fékk ég að segja rétt áður en þau gengu út, blessuð brúðhjónin: Dömur mínar og herrar, má ég kynna í fyrsta sinn, herra og frú ....... Já, þetta var sannarlega dásamlegt! Svo fór ég auðvitað í veisluna á eftir, þau báðu mig að flytja borðbæn (sem ég með ánægju samþykkti). Við háborðið sátu brúðhjónin ásamt öllu sínu fylgdarliði, 6 brúðarmeyjum og 6 brúðgumasveinum. Allt saman yndislegt og flott!

Í dag, sunnudag, gerðist líka margt skemmtilegt. Eins og alla sunnudaga frá þeim fyrsta í ágúst messaði ég um morguninn, það hefur gengið vel hingað til, þrátt fyrir smá hnökra hér og þar, og sem betur fer hef ég fengið jákvæð og góð viðbrögð frá fólki við bæði þjónustu og prédikunum. Seinnipart dagsins var ég svo sett í embætti við hátíðlega athöfn í kirkjunni. Biskupinn í Saskatchewan, Bishop Cindy Halmarson, sá um athöfnina ásamt prófastinum, Rev. Dan Haugen, en svo vill til að Dan Haugen var áður prestur í Messiah Lutheran Church og er núna einn safnaðarmeðlima. Þó nokkrir prestar úr bænum, frá ýmsum kirkjudeildum, mættu í athöfnina og skrýddust ölbum. Allra ánægðust var ég þó með að Faith Rohrbough, sú sem ég dvaldist hjá fyrir tveimur árum í Saskatoon, mætti einnig og bættist í hóp prestanna. Athöfnin var mjög hátíðleg, safnaðarmeðlimir tóku þátt með því að bjóða mig velkomna með fallegum orðum. Þið heima verðið endilega að kíkja á formið hérna við innsetningarathafnir, það er alveg yndislegt! Athöfnin var tekin upp á vídeó og ég mun senda hana heim fyrir ma og pa - skiptir engu þó þau skilji kannski ekki allt! :) Að athöfn lokinni var snæddur kvöldverður, margir komu með eitthvað ætilegt með sér svo allir fengu notið. Einn eldri maður í söfnuðinum gekk til mín eftir matinn og sagði: „Jæja, Pastor Iris (það er sko nýja nafnið). Nú hefurðu loksins fengið formlegt leyfi til að skipa okkur fyrir, héðan í frá verðum við að fara eftir öllu sem þú segir!" Og svo glotti hann, blessaður!

Já, þær eru góðar gleðistundirnar í lífinu. Og ég er þakklát fyrir að hafa upplifað þær margar undanfarið. Framundan er fullt af fleiri "ífyrstaskipti" stundum sem vonandi verða gleðilegar líka. Þú færð að heyra um þær síðar.

P.s. Ég lofaði því síðast að segja ykkur hvernig sagan um mýsnar í kirkjunni endaði. Ég fann tvær í viðbót í gildrum einn morguninn sem ég sjálf, hetjan, tók og henti í ruslið. Tvær aðrar enduðu líf sitt í gildrum áður en við fundum út hvar þær komust inn. Málið var leyst og nú eru engar mýs í kirkjunni. Mikið er ég nú ánægð, ég er búin að sjá nóg af dauðum músum fyrir lífstíð!

Saturday 15 September 2012

Myndir teknar í ágúst 2012

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í ágúst - gleymdi alltaf að setja þær á bloggið. Njótið! :)

Við vatnið Emma sem er um 35 km frá Prince Albert

Jennifer, vinkona mín úr söfnuðinum

Framkvæmdir á raðhúsalengjunni (eða u-lengjunni) sem verður heimili mitt í janúar eða febrúar. Þessar byggingamyndir eru auðvitað fyrir pabba og Hlyn bróður :)

Þessar íbúðir eru komnar lengra

Þarna mun ég búa :)

Fleiri byggingamyndir

Þessi lengja er við hliðina - fullbúin hús. Eins og dúkkuhús!

Finnst ykkur þetta ekki flott!?

Krakkar úr kirkjunni minni, stödd á æskulýðsmótinu í Saskatoon

Frábærir krakkar!

Tekið á einni samverustundinni - allt stórt og mikið í henni Kanödu :)

Geturðu lesið textann??

Samvera á föstudagskvöldi í garði í Saskatoon. Fengum grillaðan kvöldmat, svo var guðsþjónusta og þar var meðal annars sýndur indíánadans. Mjög gaman. Gleymdi að taka myndir af því - sorry!

Sviðið fyrir hljómsveitina

Við fundum okkur góðan stað undir stóru tré! Kaylee að senda sms :)


Monday 3 September 2012

Á músaveiðum


Mér er minnistæð helgarferð sem ég og Magga vinkona fórum í sumarbústað foreldra hennar vetur einn fyrir silljón árum síðan. Þegar við komum að bústaðnum bað Magga mig um að fara inn og kanna músagildrurnar fjórar sem þar voru og skutla þeim í ruslið ef þar væru mýs. Mér fannst þetta nú auðvelt verk og skildi ekkert í henni að geta ekki farið inn sjálf til að leita að dauðum músum - iss piss! Þegar inn var komið kom í ljós að engar mýs voru í gildrunum en ein hafði augljóslega smollið aftur. Við nánari athugun kom í ljós að mús hafði lent í gildrunni en aðrar mýs höfðu gætt sér á líkinu (oj!). Það eina sem var eftir af músinni var rófan sem lá við hliðina á gildrunni.

Eftir þessa upplifun hef ég alltaf álitið að ekkert sem tengdist músum, músagildrum og músaveiðum gæti komið mér úr jafnvægi. Fyrr en núna síðasta fimmtudag. Tvö barnabörn Donnu kirkjuvarðar, Ella og Jake, komu í heimsókn til ömmu í vinnuna og voru eftir hjá henni á meðan móðir þeirra þurfti að skreppa frá. Ella, þriggja ára, var að leika sér að dóti í sunnudagaskólaherberginu þegar hún kallaði á ömmu sína og sagði: Amma, hvað er þetta? Og viti menn, hún hafði komið auga á litla mús sem hljóp yfir gólfið í safnaðarheimilinu. Við Donna fórum á stúfana og eltum músina, hún hljóp inn í eldhús og faldi sig undir ísskápnum og síðan eldavélinni. Ég komst að því á þessu augnarbliki að ég gæti ekki með nokkru móti drepið blessaða músina með kústskafti eða öðru tóli, mér var það bara gersamlega ómögulegt. Ég reyndi að elta hana með litla fötu í hendi, en tókst auðvitað ekki að skella henni yfir hana. Músin endaði inni í hitakompunni, við lokuðum dyrunum, settum dúk undir dyrnar svo hún slyppi ekki út og veltum fyrir okkur hvern við ættum að hringja í til að veiða músina. Þá bar þar að eina úr söfnuðinum, Twyllu, og hún skaust út í búð til að kaupa músagildrur. Þegar músagildrurnar voru komnar í hús var annar úr söfnuðinum, Gary, mættur á svæðið, ég og Gary settum bita af kleinuhringi í fjórar gildrur og stilltum þeim upp - tveimur í hitakompunni og tveimur í eldhúsinu. Nú var bara að bíða og sjá hvað myndi gerast. Eftir um tvo klukkutíma ákváðum ég og Donna að kanna gildrurnar. Engar mýs voru í gildrunum í eldhúsinu en í einni í hitakompunni var litla brúna músin okkar. Til allrar óhamingju var hún ekki dauð. Þá fyrst fékk ég hjartaáfall, því ég vissi að við þyrftum að drepa hana svo hún þjáðist ekki að óþörfu. Og ég bara gat alls ekki kálað blessaðri músinni! Donna er auðvitað miklu meiri nagli en ég og sló hana í höfuðið með fægiskóflu. Hún iðaði ekki meira, sú litla. Síðan sópaði Donna henni (og gildrunni) upp í fægiskófluna og henti í ruslið. Ég verð að segja að þetta ævintýri sannaði fyrir mér að ég er alger kjúklingur þegar kemur að svona málum. Ég bara get ekki drepið dýr! Ég get varla drepið kóngulær, um leið og kvikindin fara yfir ákveðna stærð þá bara get ég ekki kálað þeim. Kjúklingur eða dýrlingur? Ja, það er spurning!

Sagan er ekki búin því við létum hinar þrjár gildrurnar vera ef fleiri mýs leyndust í kirkjunni. Á sunnudagsmorgun mætti ég snemma og með mér var Jennifer sem fékk far hjá mér. Við læddumst báðar í eldhúsið og í hitakompuna til að kanna gildrurnar. Og já, ein steindauð mús var í gildrunni í hitakompunni. Jennifer sópaði henni upp á pappa og henti í ruslið. Enn og aftur kom kjúklingurinn upp í mér svo ég naut aðstoðar annarra við að henda leifunum. Við sáum á gildrunum í eldhúsinu að beiturnar höfðu verið étnar á þeim báðum, án þess að gildran hrykki aftur. Við settum því nýjar beitur í gildrurnar og komum þeim fyrir, einni í eldhúsinu og einni í hitakomunni. Það verður mitt að kanna þær í fyrramálið því Donna mun koma aðeins seinna en venjulega. Ef ég finn mús í gildru þá neyðist ég víst til að skíta út hendur mínar - enda ekki hægt að vera svona kjúklingur endalaust! Við sjáum til, vonandi er orðið músalaust í kirkjunni! Læt ykkur vita hvernig fer í næsta pósti :)