Tuesday 30 July 2013

Eftirþankar um hjólatúrinn væna sumarið 2013

Fyrsta mótorhjólaferð mín hér í Kanada er nú liðin, fimm dagar af yndislegheitum á sléttum Saskatchewan og Alberta, sem og við hin fögru Klettafjöll. Ég ætla að deila með ykkur upplifun minni af ferðinni, hvað fór vel og hvað mætti betur fara í næstu ferð. Allar myndir úr ferðinni má sjá í albúmi á Facebook síðunni minni, ég leyfi þó tveimur að fylgja hér með.

Undirbúningur
Ég var búin að ákveða fyrir þó nokkru síðan að fara í mótorhjólaferð í lok júlí, strax á eftir dvöl minni á Íslandi. Áætlunin hlaut að sjálfsögðu byr undir báða vængi þegar ég lét verða að því að kaupa hjól í maí og ég ákvað að skella mér á sömu slóðir og ég fór fyrir um 3 árum síðan, til Klettafjallanna. Þá keyrði ég á bíl hluta þeirrar leiðar sem ég fór nú og hét því að hingað kæmi ég aftur síðar, og þá á hjóli. Loka ákvörðun um að halda af stað í þessa ferð núna var ekki tekin fyrr en tveimur dögum áður en ég lagði af stað. Ég kíkti á netið, kannaði leiðir, pantaði hótel og leit á veðurspána. Kvöldið fyrir brottför henti ég í tösku og svo var bara brunað af stað upp úr kl. 9, fimmtudaginn 25. júlí. Stefnan var tekin á Camrose í Alberta, síðan á Banff, þá Jasper/Hinton, svo Edmonton og loks heim aftur. Áætlunin sagði að alls yrðu þetta um 2200 km og það stóðst. Lengsti túrinn var síðasta daginn, tæpir 600 km, sá styðsti var tæplega 300 km.

Búnaðurinn (hjól og ég)
Ég þurfti ekkert að kíkja á hjólið fyrir ferðina, það er nánast eins og nýtt og því í topp standi. Það eina sem ég hafði áhyggjur af voru fótstigin. Ég átti eftir að kaupa mér "foot pegs", eða þrep til að hvíla fæturnar á því ég hafði fundið áður fyrir þreytu í fótum eftir lengri túra. Svona lítur þetta út núna:

Fótstigin

Það er mjög þreytandi eftir langa keyrslu að geta ekki hvílt fæturna á einhverju stærra og betra, þar að auki getur mikill vindur gert það að verkum að það er erfitt að halda fótunum á réttum stað. Ég þreyttist því stundum fljótar en ella og varð að stoppa oftar sökum þessa. Ætla að kippa þessu í lag fljótlega.
      Hvað mig varðar þá ákvað ég að vera í gore tex jakkanum mínum og í leðurskálmunum. Það reyndist góð ákvörðun. Það kom þó einu sinni fyrir að önnur leðurskálmin "opnaðist", þ.e. rennulásinn fór upp í vindi. Ekkert alvarlegt þó. Ég tók líka lokaða hjálminn, ekki þann opna, því ég vildi ekki lenda í grenjandi rigningu með opinn hjálm. Been there, done that! Það er alveg á hreinu að þegar ég fer í langar ferðir þá ætla ég að vera með lokaðan hjálm. Það bæði eykur öryggistilfinningu hjá mér og gerir mér einnig kleift að njóta betur útsýnis og alls þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Mér finnst stundum ef hratt er keyrt á þjóðvegum að ég geti ekki fylgst nógu vel með ef ég er með opinn hjálm. Regngallinn kom sér afskaplega vel, ég er ekkert smá ánægð með þau kaup hér um árið! Hann er ekki bara mjög góð vörn í regni heldur einnig öflugur vindgalli. 

Vegir
Allir vegir sem ég fór voru malbikaðir. Ég keyrði ekki fram á neinar meiriháttar framkvæmdir á vegum svo tafir voru fáar. Vegirnir sem ég keyrði voru að mestu leyti góðir. En það er alveg á hreinu að það er svo miklu skemmtilegra að keyra á minni þjóðvegum heldur en þeim stærri. Vissulega er hægt að keyra hraðar á stóru hraðbrautunum en traffíkin er stundum svo mikil að það er bara hundleiðinlegt! Leiðinlegasti vegurinn sem ég keyrði var þjóðvegur 2, milli Edmonton og Calgary. Ég keyrði hann frá Lacombe til Calgary (um 170 km). Þetta er þriggja akreina vegur  með alveg brjálaðri traffík. Hraðinn er mikill og ég átti fullt í fangi með að fylgjast með öllu, fylgja umferðinni og passa mig að gleyma ekki hvar ég átti að beygja. Að auki var mikið rok akkúrat þegar ég keyrði þarna og það bætti ekki aðstæður. Mikið var ég fegin þegar ég komst af þessum vegi! Mér leið best að keyra á vegum með einnig akrein í hvora átt. Það gat samt verið svolítið erfitt að mæta öllum trukkunum (þessum risastóru, sem við sjáum ekki á Íslandi!!) á slíkum vegum sökum hliðarvindsins sem af þeim kemur, en það vandist fljótt.

Hraði
Það er alltaf gaman að tala um hraða, ekki satt? En jafnframt er öruggast að segja sem minnst um hann, ekki rétt?? :) Ég var annars afskaplega góð í þessari ferð hvað hraða varðar. Ástæðan var fyrst og fremst sú að ég ætlaði mér ekki að vera nöppuð af löggunni, þá sérstaklega ekki í öðru fylki en heimafylkinu mínu. Á vegum með einni akrein í hvora átt er hámarkshraði 100 km. Á tveggja eða þriggja akreina vegum í hvora átt er 110 km hámarkshraði. Ég var ekki búin að vera lengi hér í Kanada þegar ég komst að því að fólk keyrir hér almennt um 10 km yfir leyfilegan hámarkshraða. Ég fylgdi yfirleitt hraða umferðarinnar sem var frá 110 km til 130 km. Þau sem keyra mótorhjól vita að kraftmeiri hjól liggja betur á frekar miklum hraða (jú, ég er ekki að bulla, þetta er satt!!!) - ég fann fljótt að hraðinn sem mér fannst bestur fyrir hjólið var 130 km (á stærri vegum). Og það fyndna var að ég elti lögguna á þeim hraða núna í dag á leiðinni heim! Svo ég var barasta ekkert að gera neitt ólöglegt :)

Veður
Áður en ég lagði af stað sá ég að hugsanlega myndi ég lenda í einhverri rigningu í ferðinni. Ég lét það auðvitað ekki stoppa mig. Ég hafði þó í huga að það að lenda í rigningu hér er ekki alveg það sama og að lenda í rigningu heima á Íslandi. Regnið hér getur verið alveg svakalegt! Þrumur og eldingar og alles. En ég var blessunarlega laus við það. Sólin skein við mér nánast alla daga, ekki fjórða daginn en þá rigndi bara smá. Hitinn var frá 15-25 gráður. Ég lenti líka stundum í þó nokkrum vindi en þar kemst Kanada samt ekki með tærnar þar sem Ísland hefur hælana!

Lengd túra
Ég passaði mig á að hjóla ekki of lengi í senn því ég fann að ég þurfti að hvíla fæturnar með reglulegu millibili. Venjulega keyrði ég ekki meira en 100 km án þess að stoppa. Þá stoppaði ég ca 10 mínútur, lengur um hádegi þegar ég nærðist. Á vegum er venjulega fullt af stoppustöðum en mér fannst gott að vera búin að skipuleggja stoppin áður en ég lagði af stað - þá vissi ég líka nákvæmlega hversu langt var á milli þeirra.

Hótel
Ég dvaldi þrjár nætur á hótelum. Öll voru alveg ágæt, það besta við þau að öll buðu upp á internet þjónustu í herbergjum. Það er auðvitað alveg ómissandi! Eitt þeirra var meira að segja með stæði í bílageymslu! Eins og áður sagði þá pantaði ég ekki hótel nema með 2 daga fyrirvara - það er allt svo auðvelt þegar bara er pantað fyrir eina manneskju! :) Besta "hótelið" var svo auðvitað heima hjá góðri vinkonu minni í Edmonton. Yndislegt alveg hreint!

Náttúra/dýralíf
Það besta við að vera á mótorhjóli er hin nána tenging við náttúruna. Það sannaði sig algerlega í þessari ferð. Mér fannst yndislegt að keyra bæði um slétturnar og með fjöllin mér við hlið. Hvert landslag hefur sinn sjarma.

Hvað er annað hægt en að dást af svona landslagi??

Bæði Banff og Jasper þjóðgarðarnir eru þekktir fyrir mikið dýralíf en ég sá ekki eitt einasta dýr á þessum slóðum fyrr en ég var að fara frá bænum Jasper - þá voru fullt af dádýrum við veginn sem dúlluðu sér í rólegheitum. Þess utan keyrði ég fram á tvo jarðíkorna sem skottuðust yfir veginn og rétt sluppu við að ég keyrði á þá! Drap auðvitað slatta af pöddum og fékk eina drekaflugu í fangið - en að öðru leyti var ég laus við dýrin. Hér í Kanada þarf alltaf að hafa varann á sér þegar keyrt er úti á vegum því villt dýr eru hér út um allt. Svei mér ef ég sakna þess ekki að hafa "bara" rollur til að hafa áhyggjur af! :)

Ástand í lok dags
Annar dagurinn var erfiðastur (Camrose - Banff) því þá var rokið mest og svo auðvitað hin leiðinlega hraðbraut 2 til Calgary. Ég var mjög þreytt í fótunum eftir þann dag. Besti dagurinn var sá styðsti, (Hinton - Edmonton), en líka vegna þess að ég var í regngallanum og varð því ekki eins mikið vör við vindinn. Alveg merkilegt hvað vindur getur valdið mikilli þreytu! Á öllum stöðunum sem ég gisti tók ég mér tíma til að fara í göngutúr og skoða staðina. Skemmtilegast var auðvitað að labba um Banff, þennan yndislega bæ, og njóta túristastemmningarinnar. Hitinn var samt aðeins of mikill fyrir mig, um 30 gráður - en ég lét mig hafa það!

Ýmislegt
Á hverju kvöldi kíkti ég á leiðina sem ég fór daginn eftir, skrifaði niður punkta sem ég hafði í tanktöskunni. Jú, ég var með GPS en stundum vísar þetta blessaða gps tæki á einhverja flókna leið (þótt það sé rétt stillt) og þá er nú betra að vita hvert ferðinni er heitið.
     Þau voru mörg sem spurðu mig hvort ég ætlaði virkilega að hjóla alla þessa leið ein. Satt er að ég hef aldrei hjóla svona langt ein, en ég hefði aldrei látið það stoppað mig. Það eru bæði kostir og gallar við að vera ein í hjólatúr. Kostirnir eru þeir að þú ræður þér sjálf og stjórnar algerlega ferðinni. Stoppin eru mun styttri en ella og líklega færri, og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af neinni annarri en sjálfri þér. Gallarnir eru þeir að það er miklu skemmtilegra að upplifa öll yndislegheitin við svona hjólaferðir með annarri manneskju, geta rætt saman um upplifelsin, bæði á meðan ferðinni stendur og eins eftir á. Og það er líka ákveðið öryggi í að hafa fleiri með sér. Ég mun klárlega fara í fleiri svona ferðir einsömul en ég hlakka líka til að fara í ferðir með vinkonum mínum að heiman sem vonandi eiga eftir að skreppa hingað "westur" og taka túr með mér.

Lokaþankar
Mikið er ég nú glöð að hafa farið í þessa ferð - hún var mun betri en ég hafði gert mér væntingar um! Hjólið var frábært - ekki feilpúst alla leiðina. Og ég lenti ekki í neinum erfiðleikum við neitt. Ég er strax farin að hugsa hvert ég vil fara næst. Ég mun þó ekki fara svona langa ferð aftur þetta sumar, en næsta sumar er skammt undan. Framundan er þrif á hjóli og svo fullt af smærri ferðum það sem eftir lifir sumars. Vá, hvað ég er heppin! :)

Sunday 26 May 2013

Viðburðarík vika

Margt hefur drifið á daga konunnar í Prinsinum Alberti síðustu vikuna. Ég sé mig knúna til að deila þessum viðburðum með ykkur sem og myndum af öllum herlegheitunum.

Eins og alþjóð er kunnugt þá fjárfesti ég í mótorhjóli fyrir skömmu, Hondu 1300cc, 2007 módelið, ekið 4000 km. Fyrstu vikuna keyrði ég hjólið 600 km - um að gera að pumpa kílómetramælinn aðeins upp eftir nánast enga hreyfingu síðustu árin!

Hvíta hættan, fallega Hondan mín :)

Ég heimsótti ýmsa bæi hér í nágrenninu. Meðal annars fór ég með fjórum öðrum mótorhjólaköppum til að hitta fleiri í bæ um 90 km frá Prince Albert. Einn kappinn sem við fórum með var á svakalegu hjóli, svokölluðu Boss Hoss hjóli - kannski ætti frekar að kalla það eldflaug en hjól! Kíkið á:

Græna hættan! 

Hvílíki krafturinn í þessu hjóli! Svei mér ef það gengur ekki fyrir eldflaugabensíni!

Þið ættuð að prófa að hjóla fyrir aftan þennan grip! Þegar gæinn gaf því inn þá kom svartur reykur útundan því! Og hávaðinn!! Kíkið á þessa síðu, þá sjáið þið allt um þetta hjól: http://www.bosshoss.com/products.asp. Í hvert skipti sem við stoppuðum þá hópaðist fólk í kringum hjólið til að skoða það og dást af því. Honum fannst það nú ekki leiðinlegt, honum Dale! Hér fyrir neðan eru svo fleiri myndir úr þessari ferð:

Hér eru hjólin okkar sem komum frá Prince Albert - fyrir utan krá í Shell Lake þar sem við hittum annað hjólafólk. 

Einn ferðafélaganna, Cheri

Á annan í Hvítasunnu, á meðan sum ykkar voruð í hjólamessu á Íslandi, þá fór ég í ferð til Waskesiu, en það er þjóðgarður rétt utan við Prince Albert (um 90 km í burtu). Leiðin var dásamleg, mörg falleg vötn sem hægt var að stoppa við og njóta veðurblíðunnar. Hér eru myndir frá þeirri ferð:

Við Waskesiu vatn - dásamlegt alveg hreint! 

Ferðafélagarnir, Dennis og Gisele Neudorf

Ég á vafalaust eftir að sýna ykkur fleiri myndir frá öðrum hjólatúrum í sumar. Ég er aldeilis farin að hlakka til! Það sem er hvað erfiðast að venjast við að hjóla hér í Kanada er hitinn! Ég er ekki vön að hjóla í 20 stigum eða meira á Íslandi! Mörg sem ég þekki hafa hjólað erlendis, en það hef ég ekki gert áður (utan stuttra hjólatúra í Þýskalandi hér um árið :). Ég verð því að gefa mér tíma til að venjast hitanum svona fyrsta sumarið hér. Ég keypti mér opinn hjálm til að nota innanbæjar, en þegar ég hjólaði síðustu helgi þá notaði ég hann líka utanbæjar. Það var nú meiri munurinn! Vindur og sól beint í andlitið! Í ferðinni til Waskesiu þá áttaði ég mig ekki á því hvað sólin skein skært - kom heim með rautt nef, höku og kinnar! Verð að passa mig þegar hjólað er með opinn hjálm! :)

Á fimmtudaginn var komu svo loksins ástkæru foreldrar mínir til Prince Albert. Þau flugu frá Íslandi á miðvikudag, gistu eina nótt í Toronto og flugu svo til Saskatoon á fimmtudag. Þangað sótti ég þau á fimmtudagsmorgun. Mikið var nú ánægjulegt að fá þau! Við erum búin að eiga góða daga hér í bæ, veðrið ákvað að verða leiðinlegra en vikuna á undan, kannski tóku þau kuldann með sér, blessuð hjónin! En þetta lítur betur út þessa vikuna - sól og blíða og yfir 20 gráðum hvern dag. 

Íbúar í raðhúsahverfinu þar sem ég bý standa oft fyrir ýmsum uppákomum yfir sumarið. Sú fyrsta var í gærmorgun, laugardagsmorgun, þegar öllum íbúum var boðið í morgunverð við tvo bílskúra. Allir mættu með stóla og svo voru grillaðar pylsur (eða sausages) og steiktar pönnukökur, - ekta kanadískur morgunverður! Að sjálfsögðu fór ég með gömlu hjónin í þessa veislu - pabbi var svo hrifinn af þessum morgunverði að ég er búin að lofa honum að gera slíkt hið sama einhvern morguninn bara fyrir okkur þrjú! Hér sjáið þið nokkrar myndir af þessum viðburði:

Hjónin í miðju áti! 

Hluti af nágrönnum okkar. Veðrið var nú ekki það besta en miðað við íslenskar aðstæður, mjög gott!

Bæði mamma og pabbi hafa komið mér á óvart hvað varðar enskukunnáttu. Þau eru bara stórgóð í að tala ensku! En þeim gengur miklu betur að tala þegar ég er hvergi nærri! Þá treysta þau á sig sjálf, ekki mig - og auðvitað verður þetta bara ekkert mál!

Í morgun fórum við svo í messu. Allt fólkið var mjög spennt yfir að hitta þau og hreinlega kaffærðu hjónin í hlýlegheitum. Eftir messuna var kaffi og ég kom mömmu á óvart með því að bjóða upp á afmælisköku sem ég hafði pantað. Á henni stóð: Til hamingju með afmælið, elsku mamma. Svo sungum við afmælissönginn - en auðvitað á ensku! Hér sjáið þið myndir af þessu:

Íslendingarnir fyrir framan tertuna

Mamma blæs á kertin sjö - eitt fyrir hvern áratug!

Ein samsett mynd - konan með okkur mömmu á einni myndinni er Gladys Faber en hún átti afmæli í dag, svo við sungum líka afmælissönginn fyrir hana :)

Þessa vikuna ætlum við að taka því rólega, litla fjölskyldan, kanna bæinn, fara í göngutúra og gera annað skemmtilegt. Við mamma ætlum að kaupa blóm til að setja fyrir utan húsið til að vera svolítið í takt við nágrannana. Við pabbi ætlum að kíkja á hillur til að setja upp í bílskúrnum. Og svo ætlum við öll að pússa og bera á borðið og kollana sem ég fékk gefins og munu standa úti á palli þegar hann verður tilbúinn. Hér er því ýmislegt á döfinni eins og heyra má. Að sjálfsögðu mun ég svo troða nokkrum hjólaferðum inn á milli annarra verka!

Lifið heil!

Friday 17 May 2013

Long time no see!

Nú eru liðnir heilir 3 og hálfur mánuður síðan ég bloggaði síðast - það er auðvitað skömm að þessu! Ég hef ekkert mér til málsbóta - hér hefur verið nóg að gera og viðfangsefnin mörg. Efniviðinn vantaði því ekki, en nennan var víðs fjarri. Hún hefur nú snúið aftur, þó líklega aðeins tímabundið, en er á meðan er!

Vetur konungur ríkti óvenju lengi hér í Prinsinum Alberti, raunar í öllu Saskatchewan - og máske öllu Kanada! Snjórinn kom í lok október og hvarf ekki að fullu fyrr en í byrjun maí. Það þykir laaaangur tími hér á bæ. En um leið og hann hvarf þá kom góða veðrið. Í tvær vikur hefur nú sólin skinið, þessa vikuna hefur verið um 20 stiga hiti hvern dag og konan sem er nýbúin að kaupa sér mótorhjól er afskaplega glöð. Hér er hægt að hjóla um sveitir og sléttur í léttum klæðnaði og vera samt að kafna úr hita! Mikið er það nú ánægjuleg breyting frá hinu kalda Íslandi. Þessi helgi er svokölluð Langa Maí Helgin. Það tengist ekki Hvítasunnu því dagsetning hennar er breytileg. Langa Maí Helgin er hins vegar alltaf þriðja helgin í maí. Og nú hittir svo á að það er líka Hvítasunnuhelgin. Þessi helgi markar upphaf ferðalaga hjá Kanadabúum, sérstaklega þeim sem búa hér um slóðir. Fólk drífur sig til hinna mörgu vatna í norðri, sest jafnvel að í sumarbústöðum sínum það sem eftir lifir sumars. Ég skrapp í hjólatúr áðan og straumurinn út úr bænum var gífurlegur! Ætli ég væri ekki líka á leið í bústað ef ég ætti hann!

Það verður að segjast að þegar aðstæður breytast í lífi okkar mannfólksins þá erum við fljót að venjast nýjungunum. Ég hef aldrei verið sólarmanneskja en mikið er ég þakklát fyrir hlýja veðrið síðustu daga! Allt í einu er 15 gráður ekki nóg - ég er ekki ánægð fyrr en hitinn er komin upp í 20 gráður! Það eina sem mig vantar núna er að blessaðir verktakarnir sem byggðu húsið mitt klári nú að malbika innkeyrsluna og ganga frá í kringum húsin. Hér er allt umkringt mold og drullu (mest megnis skraufaþurri), og því fyllist allt fljótt af ryki. Mér er sagt að þetta verði klárað á svona einum til tveimur mánuðum svo ég verð víst að vera þolinmóð.

Á morgun, 18. maí (sem reyndar er nú runninn upp á Íslandi), heldur hún móðir mín upp á 70 ára afmælið sitt. Til hamingju, elsku mamma! Það hefði nú verið gaman að koma henni á óvart og birtast skyndilega í veislunni - en það er aðeins of langt til Íslands til að hægt sé að skreppa þangað! Þar að auki á ég fljótlega von á gamla settinu hingað til lands og þá höldum við bara okkar eigið partý!

Ég hlakka til sumarsins hér - einnig til sumarfrísins sem ég ætla að eyða á Íslandi, síðustu vikuna í júní og tvær fyrstu í júlí. Þá verður stuð! Þess má þó geta að konan nýtur sín afskaplega vel hér í Kanada og er ekkert á leiðinni heim aftur á næstunni (nema þá bara í sumarfríið). Mín bíða fjölmargir hjólatúrar um víðlendur Kanada. Hondan og ég verðum betri og betri vinir með hverjum deginum og ég á von á að við eyðum sem flestum stundum saman næstu vikur og mánuði.

Hafið það sem allra best kæru vinir. Vonandi verður sumarið gott og blessað hvað sem þið takið ykkur fyrir hendur!


Saturday 2 February 2013

Tölvuvandræði ..... úr sögunni!

Jæja gott fólk. Ég varð nú bara að fá aðeins að tjá mig um framhald tölvuvandræðanna sem ég sagði ykkur frá fyrir skömmu. Til að gera langa sögu stutta þá fór tölvan í "make-over" hjá þjónustu í Saskatoon og 8 dögum síðar var hún komin í mínar hendur á ný, alveg hreint eins og nýútsprungin rós! Nú malar hún eins og kettlingur og ferðast um á ljóshraða á Internetinu sem og milli forrita. Konan er glöð. Konan er afar glöð!

Aðeins um veðrið hér í Prinsinum Alberti. Hér er búið að vera mjög kalt síðustu tvær vikurnar, svona frá -25 til -35 gráður (ennþá kaldara ef við bætum vindkælingunni við). Þá hefur einnig bætt verulega í snjóinn og fólk hér orðið svolítið pirrað á þessu. Það segist ekki hafa séð svona veðráttu í mörg ár. Ég hef margsinnis verið spurð að því hvort ég hafi tekið þetta með mér frá Íslandi en ég er fljót að sverja það af mér - mér skilst að á mínum heimaslóðum á Fróni (á suðvestur horninu) hafi vart snjóað í vetur! Það er því af og frá að ég eigi nokkra sök á þessari ofankomu og kulda hér í norðanverðu Saskatchewan fylki. Í dag fór kuldinn niður í -15 gráður - bara hlýtt og notalegt! Ég var með brúðkaup í kirkjunni og fékk þær upplýsingar frá brúðhjónunum að þau ætluðu að fara í myndatöku bæði innan- og utandyra eftir athöfnina! Ég verð nú að segja að mér finnst ansi langt gengið að fara í myndatöku utandyra í -15 gráðum - og brúðurin klædd hlýralausum brúðarkjól!!

En svona er lífið í henni Kanödu. Flestir kippa sér lítið upp við smá frost svona á miðjum vetri - nú snúast áhyggjurnar um vorið - hversu lengi það tekur snjóinn að hverfa og hvort við eigum von á "flóði" hér um allar götur ef hann þiðnar of hratt. Já, það er engin lognmolla í veðurkortunum hér!

Sunday 20 January 2013

Tölvuvandræði

Ég er stoltur eigandi Apple Macintosh tölvu og hef verið lengi. Það besta við þessa tölvutegund er að vírusar ná illa til þeirra. Stýrikerfið og virknin er mjög einföld og ég hef aldrei lent í neinum vandræðum með Mac-ana mína, hef ég þó átt fjórar. Þar til núna. Vandræðin hófust fyrir fjórum dögum síðan. Allt í einu varð tölvan óvenju hæggeng. Það skipti engu máli í hvaða forriti ég var, hvort ég var á netinu eða ekki, hvort ég var með eitt eða fleiri forrit í gangi - það tók allt bara skelfilega langan tíma. Ein mínúta að hugsa, ein mínúta virk, ein mínúta að hugsa ..... o.s.frv. Það tók mig um þrjú korter t.d. í gær að afrita texta í einu forriti, færa hann yfir í annað og vista. Þrjú korter! Í staðinn fyrir svona u.þ.b. eina mínútu. Ég reyndi ýmislegt sjálf áður en ég leitaði mér hjálpar. Ég kannaði plássið á diskinum. Ekkert athugavert þar, af 499 gígabætum voru 421 laus - aðeins rúmlega 77 í notkun. Ég tók rækilega til, fór í Disk Utilities og sannreyndi allt saman (tók eilífðar tíma!!) og ekkert athugavert fannst. Endaði með því að hringja í 1-800-My Apple - gaurinn sagði mér að henda einhverju út og í smá tíma varð tölvan hraðari. Síðan fór allt á sama veg. Í gær rétt tókst mér að semja prédikun sunnudagsins (sem ég venjulega geri ALDREI deginum fyrir messu) og vista á tölvukubb. Eilífðartími fór í þetta allt saman. Í dag reyndi ein vinkona mín að laga þetta en ekkert gekk. Ég hringdi aftur í eplaþjónustuna og að þessu sinni fékk ég að tala við Senior Assistant, svokallaðan VIP hjá þeim þarna í stóra eplinu. Hann reyndi allt sem hann gat - ætlaði jafnvel að endurhlaða allt saman (eða strauja gripinn) en það tókst ekki einu sinni! Tölvan sagði bara nei, pakkaði saman og fór í fýlu! Plan B er að fara til Saskatoon á morgun í Apple búð og fá aðstoð frá þeim. Ég er auðvitað alls ekki glöð með þetta því það þýðir að ég verð tölvulaus í einhverja daga - og það get ég bara alls ekki!! Hef komist að því að ég er með tölvufíkn á háu stigi!

En viti menn. Eftir að hafa talað við tölvugaurinn fyrir svona um einni klukkustund síðan þá ræsti ég tölvuna á ný, bara svona til að kanna hvort ég gæti kannski kíkt á póstinn minn, ef fýlan væri nú farin af henni blessaðri og ég gæfi mér góðan tíma. Þess má geta að í öllum þessum hægagangi tölvunnar þá fraus hún aldrei alveg. Nema hvað, ég ræsti hana (það tók dálítinn tíma), fór á netið og allt í einu var bara allt í lagi með gripinn! Ég veit ekkert hvort hún er orðin fullkomlega heilbrigð aftur, eða hvort ég fæ aðeins að njóta hennar tímabundið í þessu líka góða skapi! Ég dreif mig auðvitað og bloggaði smá bara svona til að láta ykkur öll vita að ef þið sjáið mig ekki mikið á netinu, facebook eða bara einhvers staðar í tölvuheiminum, þá er tölvan mín líkast til farin í fýlu aftur. Ég er farin að halda að hún sé haldin illum anda - og að mér hafi tímabundið (vonandi alveg) tekist að reka hann út! Við sjáum til. Má vera að þetta haldist gott - ef ekki, þá er ég sannarlega á leið til Saskatoon á morgun!

Svona rétt í lokin: Þið þarna PC notendur - það þýðir ekkert að segja mér að snúa mér að PC tölvum þó ég hafi lent í þessu basli. Mac-ar eru og verða alltaf bestu tölvurnar! Og hana nú!!!