Friday 17 May 2013

Long time no see!

Nú eru liðnir heilir 3 og hálfur mánuður síðan ég bloggaði síðast - það er auðvitað skömm að þessu! Ég hef ekkert mér til málsbóta - hér hefur verið nóg að gera og viðfangsefnin mörg. Efniviðinn vantaði því ekki, en nennan var víðs fjarri. Hún hefur nú snúið aftur, þó líklega aðeins tímabundið, en er á meðan er!

Vetur konungur ríkti óvenju lengi hér í Prinsinum Alberti, raunar í öllu Saskatchewan - og máske öllu Kanada! Snjórinn kom í lok október og hvarf ekki að fullu fyrr en í byrjun maí. Það þykir laaaangur tími hér á bæ. En um leið og hann hvarf þá kom góða veðrið. Í tvær vikur hefur nú sólin skinið, þessa vikuna hefur verið um 20 stiga hiti hvern dag og konan sem er nýbúin að kaupa sér mótorhjól er afskaplega glöð. Hér er hægt að hjóla um sveitir og sléttur í léttum klæðnaði og vera samt að kafna úr hita! Mikið er það nú ánægjuleg breyting frá hinu kalda Íslandi. Þessi helgi er svokölluð Langa Maí Helgin. Það tengist ekki Hvítasunnu því dagsetning hennar er breytileg. Langa Maí Helgin er hins vegar alltaf þriðja helgin í maí. Og nú hittir svo á að það er líka Hvítasunnuhelgin. Þessi helgi markar upphaf ferðalaga hjá Kanadabúum, sérstaklega þeim sem búa hér um slóðir. Fólk drífur sig til hinna mörgu vatna í norðri, sest jafnvel að í sumarbústöðum sínum það sem eftir lifir sumars. Ég skrapp í hjólatúr áðan og straumurinn út úr bænum var gífurlegur! Ætli ég væri ekki líka á leið í bústað ef ég ætti hann!

Það verður að segjast að þegar aðstæður breytast í lífi okkar mannfólksins þá erum við fljót að venjast nýjungunum. Ég hef aldrei verið sólarmanneskja en mikið er ég þakklát fyrir hlýja veðrið síðustu daga! Allt í einu er 15 gráður ekki nóg - ég er ekki ánægð fyrr en hitinn er komin upp í 20 gráður! Það eina sem mig vantar núna er að blessaðir verktakarnir sem byggðu húsið mitt klári nú að malbika innkeyrsluna og ganga frá í kringum húsin. Hér er allt umkringt mold og drullu (mest megnis skraufaþurri), og því fyllist allt fljótt af ryki. Mér er sagt að þetta verði klárað á svona einum til tveimur mánuðum svo ég verð víst að vera þolinmóð.

Á morgun, 18. maí (sem reyndar er nú runninn upp á Íslandi), heldur hún móðir mín upp á 70 ára afmælið sitt. Til hamingju, elsku mamma! Það hefði nú verið gaman að koma henni á óvart og birtast skyndilega í veislunni - en það er aðeins of langt til Íslands til að hægt sé að skreppa þangað! Þar að auki á ég fljótlega von á gamla settinu hingað til lands og þá höldum við bara okkar eigið partý!

Ég hlakka til sumarsins hér - einnig til sumarfrísins sem ég ætla að eyða á Íslandi, síðustu vikuna í júní og tvær fyrstu í júlí. Þá verður stuð! Þess má þó geta að konan nýtur sín afskaplega vel hér í Kanada og er ekkert á leiðinni heim aftur á næstunni (nema þá bara í sumarfríið). Mín bíða fjölmargir hjólatúrar um víðlendur Kanada. Hondan og ég verðum betri og betri vinir með hverjum deginum og ég á von á að við eyðum sem flestum stundum saman næstu vikur og mánuði.

Hafið það sem allra best kæru vinir. Vonandi verður sumarið gott og blessað hvað sem þið takið ykkur fyrir hendur!


2 comments:

  1. Gaman að fá fréttir fá Vestur-Íslendingnum. Til hamingju með mömmu þína og gleðilegt sumar.

    ReplyDelete