Saturday 2 February 2013

Tölvuvandræði ..... úr sögunni!

Jæja gott fólk. Ég varð nú bara að fá aðeins að tjá mig um framhald tölvuvandræðanna sem ég sagði ykkur frá fyrir skömmu. Til að gera langa sögu stutta þá fór tölvan í "make-over" hjá þjónustu í Saskatoon og 8 dögum síðar var hún komin í mínar hendur á ný, alveg hreint eins og nýútsprungin rós! Nú malar hún eins og kettlingur og ferðast um á ljóshraða á Internetinu sem og milli forrita. Konan er glöð. Konan er afar glöð!

Aðeins um veðrið hér í Prinsinum Alberti. Hér er búið að vera mjög kalt síðustu tvær vikurnar, svona frá -25 til -35 gráður (ennþá kaldara ef við bætum vindkælingunni við). Þá hefur einnig bætt verulega í snjóinn og fólk hér orðið svolítið pirrað á þessu. Það segist ekki hafa séð svona veðráttu í mörg ár. Ég hef margsinnis verið spurð að því hvort ég hafi tekið þetta með mér frá Íslandi en ég er fljót að sverja það af mér - mér skilst að á mínum heimaslóðum á Fróni (á suðvestur horninu) hafi vart snjóað í vetur! Það er því af og frá að ég eigi nokkra sök á þessari ofankomu og kulda hér í norðanverðu Saskatchewan fylki. Í dag fór kuldinn niður í -15 gráður - bara hlýtt og notalegt! Ég var með brúðkaup í kirkjunni og fékk þær upplýsingar frá brúðhjónunum að þau ætluðu að fara í myndatöku bæði innan- og utandyra eftir athöfnina! Ég verð nú að segja að mér finnst ansi langt gengið að fara í myndatöku utandyra í -15 gráðum - og brúðurin klædd hlýralausum brúðarkjól!!

En svona er lífið í henni Kanödu. Flestir kippa sér lítið upp við smá frost svona á miðjum vetri - nú snúast áhyggjurnar um vorið - hversu lengi það tekur snjóinn að hverfa og hvort við eigum von á "flóði" hér um allar götur ef hann þiðnar of hratt. Já, það er engin lognmolla í veðurkortunum hér!