Sunday 26 August 2012

Moskítóflugum boðið í partý

Ég átti alltaf eftir að segja ykkur frá vinunum sem ég eignaðist fljótlega eftir að ég kom til Kanada. Þið mynduð kannski ekki kalla þá vini en þeir hafa sannarlega skilið margt eftir sig hjá mér. Þessir vinir eru auðvitað moskítóflugurnar sem ákváðu að halda partý í tilefni þess að nýtt norrænt blóð mætti í bæinn. Vandamálið er bara það að partýið er haldið á líkama mínum og það virðist ekki ætla að taka neinn enda. Þetta eru nú meiri partýljónin! 50 bit víðsvegar um kroppinn, m.a. á andliti, svei mér þá. Ég er að spá í að halda fund bráðlega með partýljónunum og segja þeim að nú sé nóg komið. Það hlýtur að vera nýtt blóð einhvers staðar annars staðar í bænum sem er betra á bragðið en mitt. Pödduspreyið dugar ekki, það eina sem virkar er Calamine-ið sem er eins konar "eftir-á-smurning". En þá er auðvitað skaðinn skeður. Hér er sem sagt komin enn ein ástæða fyrir að vera innandyra í góða veðrinu. Það er svo sem ekkert slæmt, að mínu mati!

Undanfarna viku hef ég verið önnum kafin við að segja já við matarboðum hingað og þangað. Tveir hádegisverðir og þrír kvöldverðir. Jú, ég spara vissulega peninga fyrir mat en gveðmundur minn, þetta er ekki alveg besta aðferðin við að hrista af sér kílóin! Samkvæmislífið er því í bullandi siglingu, þó má bæta við að þau sem bjóða eru nú vanalega harðgift fólk á besta aldri. Bara betra fyrir mig!

Síðustu helgi tók ég þátt í æskulýðsmóti á vegum lúthersku og anglikönsku kirkjunnar í Kanada. Mótið var frábært í alla staði, um 900 þátttakendur (650 krakkar, 250 leiðtogar). Ég er stútfull af hugmyndum sem vinir á Íslandi gætu notað í framtíðinni - læt ykkur vita um þær allar síðar. Mótið var mjög vel skipulagt, við gistum á hóteli og allir 12 krakkarnir frá minni kirkju voru meiriháttar! Alltaf jákvæð, glöð og kát. Þau voru á aldrinum 14-16 ára. Ég held ég hafi sjaldan eða aldrei farið með svona flottum krökkum á æskulýðsmót, svei mér þá. Dagskráin var þétt og mikið um að vera. Sumt held ég að hefði ekki hæft liðinu heima en mér fannst þetta allt afskaplega skemmtilegt. Samskonar mót eru haldin á tveggja ára fresti einhvers staðar í Kanada. Ég ætla að sjálfsögðu að fara með hópnum í ferðina árið 2014 :) Það gerðist reyndar svolítið leiðinlegt í lok ferðarinnar. Ég fór heim á laugardagskvöldið upp úr kl. 9 því ég var með helgihald daginn eftir. Það kvöld og um nóttina kom upp veirusýking í hópnum öllum sem enginn veit hvernig byrjaði. Hún olli uppköstum og niðurgangi og voru mörg sem urðu mjög veik. Tvær úr okkar hóp veiktust, einn leiðtoginn síðustu nóttina og ein stúlka síðasta morguninn. Einn strákur veiktist svo þegar heim var komið. Þetta var sannarlega slæmur endir á frábæru móti en sem betur fer var þetta veira sem kom og fór. Innan sumra hópa breiddist þetta hraðar út en hjá öðrum en öll komust við heim á endanum.

Í messunni fyrir viku síðan skírði ég fyrsta barnið hér í Kanada. Hún heitir Rhiannon Audrey Linore Grant. Já, munnfylli af erfiðum errum :) Athöfnin tókst mjög vel og það var gaman að bæta við á "fyrsta skipti á ensku" listann. Næstu helgi mun ég halda áfram að bæta á þennan lista. Þá verð ég með minningarstund í kirkjugarði við jarðsetningu duftkers. Ég ætti kannski ekki að segja þetta en ég hlakka til!

Hálfgerð rútína er komin á dagana hér í Prince Albert. Ég verð alltaf ánægðari og ánægðari með bílinn minn. Komst að því að ein ástæða þess að hann eyddi svona miklu bensíni var að eitt dekkið var hálf loftlaust. Ég hafði ekki tekið eftir því því það var að aftan, hægra megin. Eftir að ég hafði kannað öll dekkin og jafnað loftmagnið þá er bara allt annað að keyra bílinn. Næsta mál á dagskrá er að þrífa hann, það er heill pöddukirkjugarður á honum að framanverðu.

Á föstudagskvöld fór ég á lokahátíð lúthersku sumarbúðanna hér rétt hjá, aðeins um 40 kílómetra norður af Prince Albert. Sumarbúðirnar standa við Christopher vatn og heita Kinasao (þýðir fiskur á indíánamáli). Þessi lokahátíð er líka fjáröflun fyrir sumarbúðirnar, fólk kaupir miða inn á hana (25 dollara, rúmlega 3000 kr). Við byrjuðum á því að snæða góða máltíð, síðan var happadrætti sem styrkt var af fjölmörgum fyrirtækjum (hægt að kaupa miða á staðnum). Svo lauk kvöldinu á helgileik um píslargöngu Krists. Það var mögnuð upplifun. Leikarar voru starfsfólk sumarsins, þau byrjuðu á kvöldmáltíðaratburðinum, síðan færðu þau sig út og allur hópurinn elti. Lokasenan var Kristur á krossinum - já, leikarinn var "negldur" á kross og "hermenn" með kyndla stóðu við hlið hans. Þetta var flott hjá þeim. Kannski hugmynd fyrir sumarbúðirnar okkar í framtíðinni? Góð fjáröflunaraðferð :)

Það er sannarlega nóg að gera hjá klerkinum þessa stundina. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa ratað hingað til þessa góða fólks sem söfnuðinum tilheyrir. Mér hefur enn ekki vafist tunga um tönn svo illa sé, ég verð sífellt öruggari í tungumálinu. Bless í bili, meira síðar.

Sunday 12 August 2012

Pönnukökur og ávextir

Sunnudagur enn og aftur hér í Prince Albert, góður dagur. Hitinn er við það sama, á bilinu 22-28 gráður og kerlan svona svolítið farin að venjast þessu. Uppgötvaði nokkuð fljótlega í þessum hita að ég vissi bara ekkert hvernig ég átti að klæða mig! Er búin að vera í leggings og pilsi í rúmar tvær vikur, og ég sem fer nánast aldrei í leggings! (nema undir mótorhjólabuxurnar :) Það þýðir auðvitað ekkert annað en að klæða sig í takt við veðurfarið, hvernig sem tautar og raular. Nú á víst að rigna svolítið í vikunni - ég tek regninu fagnandi!

Vikan er búin að vera mjög góð, búin að hitta marga, fá fólk í fyrstu viðtölin og það hefur allt gengið vel. Messan í morgun heppnaðist vel. Það gerðist reyndar eitt frekar fyndið svona 10 mínútum áður en hún byrjaði. Ég hafði skilið skrifstofuna mína eftir opna á meðan ég var að taka á móti fólki og heilsa því. Þegar ég ætlaði svo að fara og klæða mig í messuklæðin þá kom ég að hurðinni lokaðri og læstri, lyklarnir innandyra sem og alban, stólan og hljóðneminn! Líklega hafði trekkur innanhúss skellt henni aftur. Nú voru góð ráð dýr! Ég spurði nokkra viðstadda sem ég vissi að höfðu lykla af kirkjunni hvort þau höfðu lykil að skrifstofunni en svo var ekki. Mundi svo allt í einu eftir að Donna ritari hafði sagt mér að varalykill væri á skrifstofunni hennar. Ég fann hann samt ekki fyrr en blessunin hann Harvey kom og reddaði málunum. Rétt náði inn í kirkju á réttum tíma! Mikið er nú gaman þegar hjartað hoppar nánast úr brjóstkassanum á stundum! Annars fór allt á besta veg, fólk hér á auðvelt með að hrósa og þakka fyrir sig og ég er þeim auðvitað þakklát fyrir það. Eftir messu var mér boðið í mat hjá hjónum í söfnuðinum, konan er ein þeirra sem oft spilar undir söng í messum. Boðið var upp á hefðbundinn sunnudagsmat, pönnukökur með beikoni og ávöxtum. Ég þáði pönnukökurnar og ávextina sem sannarlega voru gómsætir.

Á föstudaginn skrapp ég til Saskatoon og snæddi hádegisverð með Faith, þeirri sem ég bjó hjá þegar ég var hér fyrir tveimur árum. Það voru fagnaðarfundir. Síðan fór ég í kristilega bókabúð og keypti nokkrar bækur, vesenaðist aðeins í bænum og sneri svo heim síðdegis. Ég komst að því að eðalvagninn minn er þó nokkuð drykkfelldur á bensínið - líklega hefur sitt að segja að hafa loftkælingu í gangi allan tímann á ferð. Ég mun því fara nokkuð sparlega með vagninn á næstu vikum - þó er framundan æskulýðsmótið í Saskatoon næstu helgi svo eitthvað mun spænast upp af bensíninu þá. En það verður bara að hafa það - ég vona bara að hann hætti þessari ofdrykkju þegar veðrið kólnar og loftkælingin fer í pásu!

Á morgun mun ég hitta alla krakkana sem fara á mótið næstu helgi, þau eru 12 talsins. Ég hlakka mjög mikið til - næsta blogg verður væntanlega um það. Nú ætla ég hins vegar að setjast með tærnar upp í loft, kíkja út á svalir í góða veðrinu og lesa svolítið. Ahhh, la vita e bella :)

Sunday 5 August 2012

Helgihald í Kanada

Vikan hefur verið skemmtileg hér í Prince Albert. Ég hóf störf við Messiah kirkjuna á miðvikudaginn og líkar vel við allar aðstæður. Skrifstofan mín er rúmgóð og falleg, það vantar bækur í hillurnar en úr því mun væntanlega rætast þegar ég fæ kassana mína í lok mánaðarins. Ég notaði þessa fyrstu daga ágústmánaðar til að undirbúa mig fyrir messuna sem var í dag, sunnudag. Allt gekk vel í messunni, ég gleymdi aðeins einum sálmi sem við sungum þá bara síðar í messunni. Ekkert mál að impróvísera hér :) Ég var ánægð með viðbrögð safnaðarfólksins sem tóku vel á móti nýja prestinum sínum með hlýjum orðum eftir messu. Síðan var boðið upp á köku og kaffi - risakaka var á borðum sem ég fékk að vita að væri líka afmæliskaka fyrir mig. Þau kunna þetta, hér í Kanada :)

Það sem mér finnst skemmtilegt hér í kirkjunni er að á opnunartíma hennar koma margir safnaðarmeðlimir í heimsókn - bara svona til að heilsa upp á okkur og spjalla smá. Það þýðir jú að konan kemst ekki alveg eins hratt yfir verkefnin en í staðinn fæ ég tækifæri til að kynnast fólki. Í messunni í dag voru öll með nafnspjald í barminum og það var aldeilis gott. Gerir mér kleift að læra nöfnin hraðar. Á fimmtudag átti ég afmæli og ég fékk blóm og kort frá fullt af fólki. Einhvern veginn hafði fréttin um að ég ætti afmæli borist til margra.

Eftir messu í dag fór ég á rúntinn með einni sem er í söfnuðinum, Jennifer. Við keyrðum að vatni sem heitir Emma. Þar sátum við og gæddum okkur á ís og sátum í sólinni. Veðrið var yndislegt, 24 gráður en nægur vindur frá vatninu til að kæla okkur niður. Við ætluðum að fara á flugsýningu rétt fyrir utan bæinn en traffíkin var of mikil og við nenntum ekki að sitja í umferðarteppu allan daginn. Sáum ekki eftir því að hafa farið að Emmuvatni í staðinn.

Framundan eru ýmis skemmtileg verkefni. Undirbúningur fyrir veturinn fer væntanlega fram á næstu vikum sem og annað áhugavert. Ég hlakka mikið til. Nú þegar er ein skírn framundan og tvö brúðkaup.  Ég er líka á leiðinni á æskulýðsmót sem ber heitið Clay - það er mót á vegum Anglíkönsku og Lúthersku kirkjunnar hér í Kanada - Clay stendur fyrir Canadian Lutheran Anglican Youth Gathering. 12 krakkar úr minni kirkju fara á mótið og ég fer með ásamt öðrum leiðtogum. Mikið verður nú gaman að sjá hvernig þau gera þetta hér í samanburði við okkur :)

Ég hef ákveðið að reyna að muna að blogga a.m.k. einu sinni í viku - við skulum sjá hvort ég hafi elju í það :)