Sunday 12 August 2012

Pönnukökur og ávextir

Sunnudagur enn og aftur hér í Prince Albert, góður dagur. Hitinn er við það sama, á bilinu 22-28 gráður og kerlan svona svolítið farin að venjast þessu. Uppgötvaði nokkuð fljótlega í þessum hita að ég vissi bara ekkert hvernig ég átti að klæða mig! Er búin að vera í leggings og pilsi í rúmar tvær vikur, og ég sem fer nánast aldrei í leggings! (nema undir mótorhjólabuxurnar :) Það þýðir auðvitað ekkert annað en að klæða sig í takt við veðurfarið, hvernig sem tautar og raular. Nú á víst að rigna svolítið í vikunni - ég tek regninu fagnandi!

Vikan er búin að vera mjög góð, búin að hitta marga, fá fólk í fyrstu viðtölin og það hefur allt gengið vel. Messan í morgun heppnaðist vel. Það gerðist reyndar eitt frekar fyndið svona 10 mínútum áður en hún byrjaði. Ég hafði skilið skrifstofuna mína eftir opna á meðan ég var að taka á móti fólki og heilsa því. Þegar ég ætlaði svo að fara og klæða mig í messuklæðin þá kom ég að hurðinni lokaðri og læstri, lyklarnir innandyra sem og alban, stólan og hljóðneminn! Líklega hafði trekkur innanhúss skellt henni aftur. Nú voru góð ráð dýr! Ég spurði nokkra viðstadda sem ég vissi að höfðu lykla af kirkjunni hvort þau höfðu lykil að skrifstofunni en svo var ekki. Mundi svo allt í einu eftir að Donna ritari hafði sagt mér að varalykill væri á skrifstofunni hennar. Ég fann hann samt ekki fyrr en blessunin hann Harvey kom og reddaði málunum. Rétt náði inn í kirkju á réttum tíma! Mikið er nú gaman þegar hjartað hoppar nánast úr brjóstkassanum á stundum! Annars fór allt á besta veg, fólk hér á auðvelt með að hrósa og þakka fyrir sig og ég er þeim auðvitað þakklát fyrir það. Eftir messu var mér boðið í mat hjá hjónum í söfnuðinum, konan er ein þeirra sem oft spilar undir söng í messum. Boðið var upp á hefðbundinn sunnudagsmat, pönnukökur með beikoni og ávöxtum. Ég þáði pönnukökurnar og ávextina sem sannarlega voru gómsætir.

Á föstudaginn skrapp ég til Saskatoon og snæddi hádegisverð með Faith, þeirri sem ég bjó hjá þegar ég var hér fyrir tveimur árum. Það voru fagnaðarfundir. Síðan fór ég í kristilega bókabúð og keypti nokkrar bækur, vesenaðist aðeins í bænum og sneri svo heim síðdegis. Ég komst að því að eðalvagninn minn er þó nokkuð drykkfelldur á bensínið - líklega hefur sitt að segja að hafa loftkælingu í gangi allan tímann á ferð. Ég mun því fara nokkuð sparlega með vagninn á næstu vikum - þó er framundan æskulýðsmótið í Saskatoon næstu helgi svo eitthvað mun spænast upp af bensíninu þá. En það verður bara að hafa það - ég vona bara að hann hætti þessari ofdrykkju þegar veðrið kólnar og loftkælingin fer í pásu!

Á morgun mun ég hitta alla krakkana sem fara á mótið næstu helgi, þau eru 12 talsins. Ég hlakka mjög mikið til - næsta blogg verður væntanlega um það. Nú ætla ég hins vegar að setjast með tærnar upp í loft, kíkja út á svalir í góða veðrinu og lesa svolítið. Ahhh, la vita e bella :)

No comments:

Post a Comment