Friday 19 October 2012

Stungið í steininn

Ég sat í fangelsi á fimmtudaginn. Tveir lögregluþjónar mættu í kirkjuna árla morguns, settu prestinn í handjárn og fóru með hann beint í steininn.


Fangelsið var að vísu staðsett á frekar óvenjulegum stað, í miðri verslunarmiðstöð, en fangelsi var það engu að síður. Presturinn var færður frammi fyrir dómarann og ákærur gegn honum voru lesnar upp: Viðkomandi er sökuð um að  hafa flutt íslenskt veðurfar með sér til Kanada, og að gleyma að horfa yfir öxl sér áður en hún skiptir um akrein þegar hún ekur bifreið. Dómarinn spurði: Sek eða saklaus? Og ég svaraði: Sek. En jafnframt lét ég fylgja að veðurfarið sem ég tók með mér var það góða, ekki slæma, og svo lofaði ég bót og betrun hvað aksturinn varðaði. Tryggingagjaldið var 500 dollarar. Ég reyndi að fá dómarann til að lækka það með því að syngja Hafið bláa hafið fyrir hann en hann sagðist ekki hafa skilið textann, ég gæti hafa verið að syngja níðvísu um hann! svo hann hækkaði tryggingargjaldið í 1000 dollara!

Þá var ekkert annað hægt í stöðunni en að hringja í velunnara og safna peningum fyrir gjaldinu. Fanginn settist niður og byrjaði að hringja í fullt af fólki sem hann þekkti, þá auðvitað aðallega úr söfnuðinum. Blessað fólkið vildi auðvitað klerkinn lausan úr fangelsi svo það tók ekki langan tíma að safna þúsund kallinum.

Pappírsvinnan var hins vegar annað og meira mál. Þetta endaði með að klerkur sat í 2 klukkutíma í steininum en skemmti sér nú bara alveg ágætlega.

Góðu fréttirnar eru þær að Kanadíska krabbameinsfélagið fær allan ágóðan af þessu. Þetta verkefni er búið að vera í gangi hjá þeim í mörg ár og fólk um alla Kanada þekkir til þess. Þið verðið endilega að koma þessari hugmynd til þeirra á Íslandi, ég er viss um að krabbameinsfélagið myndi safna heilmiklu með þessari aðferð.

1 comment:

  1. Kæra Íris. Gaman að lesa um ævintýrin þín í Kanada. Því miður náðum við ekki að kveðja þig almennilega áður en þú hélst af landi brott. Gangi þér allt í haginn í nýjum heimkynnum.

    Kær kveðja, Margrét, Björgvin og Daði Hrafn Yu

    ReplyDelete