Saturday 13 October 2012

Matarbankinn í söfnunarherferð

Nýja bílprófið kom að góðum notum í dag, laugardag. Við Belinda (æskulýðsleiðtoginn í kirkjunni) fórum með nokkrum krökkum úr æskulýðsfélaginu í Matarbankann (Food Bank) í bænum og tókum þátt í allsherjar söfnun ásamt fullt af fólki á öllum aldri. Söfnunin var skipulögð þannig að þátttakendum var skipt niður í hópa, innan hvers hóps voru nokkrir sem óku bílum og nokkrir sem hlupu á milli húsa. Í okkar hópi voru þrír á bíl og 6 gengu í hús. Verkefnið var vel auglýst í bæjarfélaginu svo margir höfðu sett matarpoka fyrir framan húsin sín sem við tókum og settum í bílana. Hjá öðrum bönkuðum við og flestir (sem voru á annað borð heima) gáfu eitthvað til bankans. Það er skemmst frá því að segja að við sneisafylltum þrjá bíla af mat á aðeins þremur tímum. Þegar við vorum svo búin að skila af okkur matnum gæddum við okkur á vel smakkandi pizzum.

Dagurinn var sannarlega skemmtilegur. Okkur var vel tekið af nánast öllum (nema þeim sem við vöktum árla í morgun! :) og það var gaman að sjá hversu áhugasamt unga fólkið var. Svona viðburðir eru víst algengir í bæjarfélaginu og ég er strax farin að hlakka til næsta skiptis.

Um kvöldið var svo fjölskyldukvöld í kirkjunni þar sem barnafjölskyldum var boðið að horfa á nýjustu Veggie Tales teiknimyndina, og einnig var boðið upp á föndur og snakk fyrir börnin. Yndisleg kvöldstund. Hér í norður Ameríkunni er sannarlega margt skemmtilegt að gerast og dagarnir líða hratt. Á næstu grösum er svo hrekkjavakan og auðvitað er ég búin að kaupa fullt af alls konar drasli til að setja í gluggana og skreyta. Það ætla ég að gera á mánudaginn og taka nokkrar myndir til að sýna ykkur.

Ég leyfi einni mynd að fylgja með þessu bloggi af krökkunum sem tóku þátt í matarbankasöfnuninni í dag. Ef þið skoðið myndina vel þá getið þið séð hrúguna af matarpokum fyrir aftan þau.



No comments:

Post a Comment