Monday 31 December 2012

Árið, kæri vin - árið!

Þá er loksins komið nýtt ár hér í Kanada. Það er um það bil eins og hálfs tíma gamalt en á Íslandi er það um sjö og hálfs tíma gamalt. Skemmtilegur þessi tímamismunur! Gleðilegt nýtt ár, kæru vinir og fjölskylda. Þakkir fyrir liðin ár, allt gamalt og gott, nýtt og fallegt. Konan hefur átt góða daga hér um jól og áramót og er satt best að segja alveg steinhissa á því hve skemmtilegt það getur verið annars staðar en á Íslandi á þessum tímamótum!

Síðasta vika var sannkölluð heimboðaátveislu vika. Ég fór í matar- eða kaffiboð á sunnudag, mánudag, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Þegar kom að laugardegi voru magavöðvarnir komnir í svo gott form að ég neyddist til að fara út að borða til að halda mér við! Áramótin voru full af nýjungum og skemmtilegheitum. Það var engin áramótaguðsþjónusta í kirkjunni en messan á sunnudag (30. desember) var með sannkölluðum áramótablæ. Í dag, Gamlársdag var ég svo með brúðkaup í kirkjunni þar sem kanadískur kennari giftist bandarískum hornaboltakappa. Þema brúðkaupsins var sem sagt hornabolti (baseball), svaramaður brúðgumans og hinir þrír brúðkaupssveinarnir voru allir hornaboltakappar svo mér leið svona hálfpartinn eins og ég væri í bandarískri bíómynd þar sem ég stóð við altarið. Brúðhjónin fóru með sín eigin hjúskaparheit og ég verð nú bara að segja að þeim tókst mjög vel til með það. Auðvitað var ekki eitt þurrt auga í kirkjunni á meðan þau fóru með þau en það var bara yndislegt. Útgöngulagið var "The Way You Make Me Feel" með Michael Jackson, og allt liðið, gestirnir líka, dansaði út - þar á meðal presturinn! Hörkustuð í kirkjunni í dag.

Í kvöld fór ég svo í lúthersku sumarbúðirnar Kinasao sem eru í um 40 km fjarlægð frá Prince Albert. Þar átti ég yndislegt kvöld með góðum vinum úr kirkjunni sem flest búa í nágrenni Kinasao, við Christopher Lake. Við snæddum kvöldverð saman (hver og einn kom með eitthvað ætilegt) og síðan var farið í leiki og spilað. Alveg eins og ég vil hafa það! Rúmlega ellefu var svo helgistund, ég var með smá hugleiðingu sem ég endaði á áramótaheiti beint upp úr Biblíunni. Ég ætla að láta það fylgja með hér á eftir, svona til gamans. Rétt fyrir tólf voru svo sprengdar nokkrar rakettur, ekkert miðað við það sem hin meðal Jón og Gunna á Íslandi sprengja á hefðbundnu Gamlárskveldi, en unaðslegt engu að síður. Svo hélt kerlan heim á leið, sátt og ánægð með daginn, árið og vongóð um framtíðina. Þegar heim kom hafði einhver yndisleg manneskja sett kerti og kveikt á því í stjörnulaga ískertastjakanum mínum sem birtist óvænt fyrir framan dyrnar hjá mér á Aðfangadagskvöld. Enn og aftur kemur fólk mér á óvart með gleðilegum hætti. Hér sit ég núna með bros á vör, þakklæti í hjarta og ró í sinni.

Ég vona að þið hafið haft það gott þessi áramót, kæru vinir. Ég er bjartsýn á framtíðina. Þetta ár verður gott og blessað, það er ég nokkuð viss um. Vonandi hafið þið sömu góðu tilfinninguna fyrir því eins og ég.

Hér kemur svo áramótaheitið. Ég ætla að leyfa því að standa á ensku því það er auðveldara að færa það í fyrstu persónu á ensku en íslensku. Ég tók sem sagt textann úr Kólossubréfinu 3:12-17 beint úr Biblíunni og setti 1. persónu í stað 2. persónu í hann - sem og nafnið mitt. Verði ykkur að góðu :)


A New Years Resolution
Therefore, as God’s chosen people, holy and dearly loved, I, Íris, will clothe myself with compassion, kindness, humility, gentleness and patience. I will bear with others and forgive whatever grievances I may have against others. I will forgive as the Lord forgave me. And over all these virtues I will put on love, which binds them all together in perfect unity.
I will let the peace of Christ rule in my heart, since as member of one body I was called to peace. And I will be thankful. I will let the word of Christ dwell in me richly as I teach and admonish others with all wisdom, and as I sing psalms, hymns and spiritual songs with gratitude in my heart to God. And whatever I do, whether in word or deed, I will do it all in the name of the Lord Jesus, giving thanks to God the Father through him. Amen.

1 comment:

  1. Íris mín, þetta er yndilsleg lesning og gaman að fylgjast með þér í þínu starfi á þessum nýja stað, megi Guð og gæfa fylgja þér á nýju ári.

    ReplyDelete