Monday 31 December 2012

Árið, kæri vin - árið!

Þá er loksins komið nýtt ár hér í Kanada. Það er um það bil eins og hálfs tíma gamalt en á Íslandi er það um sjö og hálfs tíma gamalt. Skemmtilegur þessi tímamismunur! Gleðilegt nýtt ár, kæru vinir og fjölskylda. Þakkir fyrir liðin ár, allt gamalt og gott, nýtt og fallegt. Konan hefur átt góða daga hér um jól og áramót og er satt best að segja alveg steinhissa á því hve skemmtilegt það getur verið annars staðar en á Íslandi á þessum tímamótum!

Síðasta vika var sannkölluð heimboðaátveislu vika. Ég fór í matar- eða kaffiboð á sunnudag, mánudag, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Þegar kom að laugardegi voru magavöðvarnir komnir í svo gott form að ég neyddist til að fara út að borða til að halda mér við! Áramótin voru full af nýjungum og skemmtilegheitum. Það var engin áramótaguðsþjónusta í kirkjunni en messan á sunnudag (30. desember) var með sannkölluðum áramótablæ. Í dag, Gamlársdag var ég svo með brúðkaup í kirkjunni þar sem kanadískur kennari giftist bandarískum hornaboltakappa. Þema brúðkaupsins var sem sagt hornabolti (baseball), svaramaður brúðgumans og hinir þrír brúðkaupssveinarnir voru allir hornaboltakappar svo mér leið svona hálfpartinn eins og ég væri í bandarískri bíómynd þar sem ég stóð við altarið. Brúðhjónin fóru með sín eigin hjúskaparheit og ég verð nú bara að segja að þeim tókst mjög vel til með það. Auðvitað var ekki eitt þurrt auga í kirkjunni á meðan þau fóru með þau en það var bara yndislegt. Útgöngulagið var "The Way You Make Me Feel" með Michael Jackson, og allt liðið, gestirnir líka, dansaði út - þar á meðal presturinn! Hörkustuð í kirkjunni í dag.

Í kvöld fór ég svo í lúthersku sumarbúðirnar Kinasao sem eru í um 40 km fjarlægð frá Prince Albert. Þar átti ég yndislegt kvöld með góðum vinum úr kirkjunni sem flest búa í nágrenni Kinasao, við Christopher Lake. Við snæddum kvöldverð saman (hver og einn kom með eitthvað ætilegt) og síðan var farið í leiki og spilað. Alveg eins og ég vil hafa það! Rúmlega ellefu var svo helgistund, ég var með smá hugleiðingu sem ég endaði á áramótaheiti beint upp úr Biblíunni. Ég ætla að láta það fylgja með hér á eftir, svona til gamans. Rétt fyrir tólf voru svo sprengdar nokkrar rakettur, ekkert miðað við það sem hin meðal Jón og Gunna á Íslandi sprengja á hefðbundnu Gamlárskveldi, en unaðslegt engu að síður. Svo hélt kerlan heim á leið, sátt og ánægð með daginn, árið og vongóð um framtíðina. Þegar heim kom hafði einhver yndisleg manneskja sett kerti og kveikt á því í stjörnulaga ískertastjakanum mínum sem birtist óvænt fyrir framan dyrnar hjá mér á Aðfangadagskvöld. Enn og aftur kemur fólk mér á óvart með gleðilegum hætti. Hér sit ég núna með bros á vör, þakklæti í hjarta og ró í sinni.

Ég vona að þið hafið haft það gott þessi áramót, kæru vinir. Ég er bjartsýn á framtíðina. Þetta ár verður gott og blessað, það er ég nokkuð viss um. Vonandi hafið þið sömu góðu tilfinninguna fyrir því eins og ég.

Hér kemur svo áramótaheitið. Ég ætla að leyfa því að standa á ensku því það er auðveldara að færa það í fyrstu persónu á ensku en íslensku. Ég tók sem sagt textann úr Kólossubréfinu 3:12-17 beint úr Biblíunni og setti 1. persónu í stað 2. persónu í hann - sem og nafnið mitt. Verði ykkur að góðu :)


A New Years Resolution
Therefore, as God’s chosen people, holy and dearly loved, I, Íris, will clothe myself with compassion, kindness, humility, gentleness and patience. I will bear with others and forgive whatever grievances I may have against others. I will forgive as the Lord forgave me. And over all these virtues I will put on love, which binds them all together in perfect unity.
I will let the peace of Christ rule in my heart, since as member of one body I was called to peace. And I will be thankful. I will let the word of Christ dwell in me richly as I teach and admonish others with all wisdom, and as I sing psalms, hymns and spiritual songs with gratitude in my heart to God. And whatever I do, whether in word or deed, I will do it all in the name of the Lord Jesus, giving thanks to God the Father through him. Amen.

Tuesday 25 December 2012

Gleðileg jól í Kanada

Það er auðvitað ekkert eðlilegt hvað tíminn líður hratt! Fimm mánuðir liðnir síðan fætur mínir snertu fyrst kanadíska jörð á þessu ári og mér líður eins og það hafi verið í síðustu viku! Aðventan hefur vitaskuld flogið fram hjá á ógnarhraða og svei mér ef jólin gera það ekki líka!

Það var dásamlegt að upplifa aðventuna hér í Prince Albert. Kalt hefur verið í veðri, allt upp í -31 gráðu (-40 með vindkælingu) en öllu er hægt að venjast. Ég elska stöðugleikann í veðrinu. Hér er yfirleitt stillt veður og sólskin þó kalt sé. Það breytir öllu. Og vitið þið hvað? Ég þvoði bílinn minn fyrir um 5 vikum síðan og hann er ennþá alveg tandurhreinn! Ekkert slabb á götum, bara harður snjór. Og þó þau bæði salti hér og sandi þá verður bíllinn ekki skítugur (nema auðvitað þú farir út á þjóðvegina, sem ég geri sjaldan). Ég var því mjög ánægð með að þurfa ekki að jólahreingera bílinn blessaðan!

Kirkjulífið hefur verið fjölbreytilegt og öðruvísi en ég er vön. Engar skólaheimsóknir, auðvitað, en margt annað í staðinn. Ég fór á tvo jólafundi, annan með konum í kirkjunni minni og síðan konum í lútherskri kirkju í nálægum bæ. Yndislegar stundir. Ég var einnig upptekin við að heimsækja fólk í desember, fólk úr söfnuðinum sem flest er í eldri kantinum og kemst lítið út. Helgihaldið var öðruvísi. Fyrsta sunnudag í aðventu héldum við yndislega aðventumessu. Skreyting á kirkjunni og helgihaldið var tvinnað saman, lesnir voru ritningarlestrar og síðan upplýsandi textar um hin ýmsu jólaskraut sem minna á jólaboðskapinn. Og svo voru auðvitað jólalögin sungin. Annan sunnudag í aðventu klæddist ég hempu og kraga til að kynna söfnuðinn fyrir hefðbundnum íslenskum prestklæðum. Ég tónaði svo prefasíuna á íslensku og einnig blessunina. Þetta mæltist vel fyrir, mörg af eldri kynslóðinni höfðu á orði að þau mundu eftir prestum í þess háttar klæðum frá bernsku sinni. Hér hafa lútherskir prestar ekki klæðst hempum svo áratugum skiptir, skilst mér. Þriðja sunnudag í aðventu var svo helgileikur fluttur í guðsþjónustu af börnum í sunnudagaskólanum. Mjög skemmtilegt allt saman. Og þann fjórða í aðventu vorum við með Lessons and Carols stund í kirkjunni, að enskri fyrirmynd. Þar er skipst á að lesa ritningarlestra og syngja jólalög. Í gær, aðfangadag, var svo kertaljósastund kl. 19, alveg yndisleg stund sem tókst mjög vel. Full kirkja af fólki og mikill hátíðarblær yfir öllu. Engin messa í dag, jóladag. Það er ekki hefð fyrir því í söfnuðinum en því mun ég breyta á næsta ári. Mér finnst mjög mikilvægt að messa á jóladag og það skiptir mig engu þó að fáir mæti, þennan helga dag verður að halda hátíðilegan í kirkjunni, að mínu mati :)

Aðventan hefur verið mjög annasöm. Fullt af fólki leit við í kirkjunni síðustu tvær vikurnar fyrir jól og ég hafði ekki undan að taka við alls konar góðgæti frá þeim - allt heimabakað auðvitað. Ég skil ekki hvernig þessu góða fólki dettur í hug að gefa mér slíkt góðgæti, það mætti halda að ég liti út fyrir að vera vannærð! Sem betur fer hafa ýmsir aðstoðað mig við að grafa mig í gegnum þetta allt saman, alltaf gott að geta boðið fólki upp á gott bakkelsi :)

Dagurinn í dag, jóladagur hefur verið yndislegur. Ég svaf auðvitað langt frameftir því mér lá ekkert á að fara á fætur. Í gærkveldi eftir aðfangadagsstundina fór ég til Feher fjölskyldunnar og átti yndislega kvöldstund með þeim í rólegheitum og notalegheitum. Kom ekki heim fyrr en undir miðnætti, var þá svo þreytt að ég ákvað að fresta því að opna gjafirnar! Það hef ég aldrei gert áður! Þegar ég svo skaust út til að slökkva á útiljósaseríunni, hvað haldið þið að ég hafi fundið á hurðarhúninum? Jólasokk, fullan af góðgæti! Á kortinu stóð: Til Írisar frá jólasveininum. Strompurinn þinn er stíflaður. Ekki opna fyrr en á Jóladagsmorgun. Heyrði að þú hefðir verið góð á þessu ári! Yndislegt! Fyrsti jólasokkurinn minn - og ég kíkti auðvitað ekki í hann fyrr en í dag. Fyrir utan dyrnar var líka annar glaðningur, ískertastjaki í laginu eins og stjarna með litlu kerti í miðjunni. Dásamlegt! Svona er nú gott fólk í kringum mig :) Hér sjáið þið myndir af jólasokkinum, fyrir og eftir opinberun - og svo myndir af ískertastjakanum (sem auðvitað helst vel frosinn í þessum gaddi!).

Jólasokkur í fullri dýrð

Skilaboð frá sveinka

Innihaldið - í kassanum er lítið mótorhjól!

Ískertastjakinn

Stjarna og kerti

Þess má geta að þegar ég vaknaði í morgun þá skein sólin skært, það fyrsta sem ég sá þegar ég kom fram á gang var sólin sem skein í gegnum glerið á útidyrahurðinni og lýsti upp íbúðina. Hér sjáið þið myndir af þessu sem og sólinni hér fyrir utan:

Sól sól skín á mig

Ekkert ský á himni svo ég get ekki haldið áfram með vísuna!

Ég ákvað að fá mér ágætis morgunverð/hádegisverð áður en ég réðst á pakkana - það þýðir ekkert að kíkja á gjafir á fastandi maga! Uppáhaldið þessa dagana eru ávextir í ávaxtadýfu. Hér sjáið þið jóladagshádegisverðinn:

Skornir bananar og jarðaber - og jarðaberja og vanillu ávaxtadýfur!

Nammi namm! Síðan voru auðvitað pakkarnir opnaðir. Ég vil þó nefna að ég opnaði einn pakka í gær frá vinkonu minni Jennifer. Ég hafði lofað henni að opna hann á aðfangadagskvöld og stóð við það. Gjöfin kom mér mjög á óvart, hún hafði brennt borðbæn í lítið sjónvarpsborð, íslenska borðbæn sem ég hafði látið hana hafa fyrir skömmu. Alveg hreint frábær gjöf. Hér fyrir neðan sjáið þið hana sem og aðrar gjafir sem ég fékk - fullt af nammi bæði frá Íslandi og Kanada - ja, það verður ekki hollustunni fyrir að fara hér næstu vikur (eða daga!):

Þurfamaður ert þú mín sál ......... stórkostlegt!

Skyldi það vera jólahjól???

Nú er ég á leið í jólaboð til Gladys og Carl Faber. Yndisleg hjón sem hafa verið mér svo góð. Ég bakaði pönnukökur áðan og ætla að taka þær með mér til þeirra.

Gleðileg jól, kæru ættingjar og vinir. Jólahátíðin er ekki bundin stund, stað eða fólki - hún kemur með sinn árlega hátíðleikablæ jafnvel þó aðstæður okkar breytast. Mér hefur tekist vel að anda að mér hinum sanna jólaanda þessi jól þrátt fyrir að vera fjarri heimahögum. Það hefur kennt mér að jólin snúast ekki um hið ytra heldur hið innra. Og að sjálfsögðu hjálpar að vera umvafinn góðu fólki sem stöðugt kemur konunni á óvart! Hafið það gott - núna og alltaf!

Sunday 9 December 2012

Vertu velkomin/n!

Ég hef alltaf verið óþolinmóð manneskja. Að minnsta kosti þegar kemur að heimili mínu. Þá á ég við að í hvert skipti þegar ég flyt eitthvert (og svo sannarlega hef ég gert mjög mikið af því í gegnum tíðina!) þá reyni ég að koma öllu í rétt horf sem fyrst. Ég hef ekkert breyst eftir að ég kom til Kanada, það er augljóst. Nú eru þrjár vikur síðan ég flutti og allir hlutir sem ég ætlaði mér að kaupa eru komnir í hús og allt komið á réttan stað sem var í kössum. Það nýjasta er fullklárað gestaherbergi. Mamma og pabbi, þið getið komið á morgun ef þið viljið!

Þannig er mál með vexti að í síðustu viku var ég að velta fyrir mér hvort ég ætlaði virkilega að hafa gestaherbergið tómt í allan vetur. Ég var búin að kaupa plastkassa fyrir geymsludótið og þar með tæma alla pappakassa, koma þessu fyrir úti í skúr í nýju hillunum svo gestaherbergið var þess vegna galtómt. Þannig hefur það verið í viku. Það var yfirdrifið nógu langur tími fyrir hina óþolinmóðu hússtýru! Á föstudag skellti ég mér í húsgagnaleiðangur og keypti rúm og tvær kommóður. Voila! Gestaherbergið er klárt! Hér sjáið þið svo árangurinn:

Þetta hlýtur að vera nógu stórt fyrir ykkur, mamma og pabbi - er það ekki??

Er mjög ánægð með þessar kommóður (sem ég er þegar búin að fylla) - þess má geta að á efstu skúffurnar er hægt að setja mismunandi lit á plöturnar fyrir innan - er að spá í að skella eðalgrænu þarna við tækifæri, nú eða rauða litnum! Gestir sem koma í heimsókn og nota herbergið mega svo velja litina sjálfir :)

Ég hef fengið nokkra tölvupósta frá fólki sem vill endilega fá að vita heimilsfangið hjá mér. Það er auðvitað ekkert leyndarmál - hér kemur það:

Íris Kristjánsdóttir
#26 3701 4th Avenue West
Prince Albert, SK, S6W 0A3
Canada

Síðustu vikur hafa verið stórskemmtilegar bæði í lífi og starfi. Nóg að gera á aðventunni, svolítið öðruvísi erill en heima en engu að síður yndislegur. Fjölmargir eru farnir að skreyta húsin sín, rétt eins og á Íslandi - ég sendi ykkur eina mynd til gamans af mjög svo skreyttu húsi nokkuð nálægt kirkjunni minni. Minnir svolítið á hús Griswold fjölskyldunnar frægu. Gleðilega aðventu, kæru vinir!

Vantar kannski "extreme close up" af þessu en þið látið bara ímyndunaraflið njóta sín :)


Monday 3 December 2012

Jólalegt um að litast

Það snjóaði heil ósköp síðustu nótt. Hér er snjórinn auðvitað búin að vera síðasta mánuðinn en það bætti all verulega í hann núna, svona ca. 10-15 cm. Það þýddi auðvitað að ég þurfti að taka fram skófluna og moka bílastæðið. Kannski ekki alveg rétt orðað því ég þurfti þess ekki, ég hefði alveg getað látið vera að ýta snjónum í burtu, en ég komst að þeirri niðurstöðu að fyrir manneskju sem þolir gersamlega enga líkamsrækt þá væri nú ágætt að púla svolitla stund við snjómokstur. Hér sjáið þið afraksturinn:
Inngangurinn - og jólaskraut á hurðinni :)

Fallegt, ekki satt?

Sko - ég mokaði mun betur en nágranninn! :)

Ég er enn að bæta við hlutum í nýja húsið. Keypti hillur í forstofuna og körfur í hillurnar í þvottahúsið. Kemur bara vel út, finnst mér. Síðan keypti ég líka geymsluhillur í bílskúrinn og þvottahúsið. Já, ég veit. Ég hefði alveg geta beðið með það en ég er bara svolítið óþolinmóð manneskja. Fékk mér einnig nokkra plastkassa til að geyma dót í. Niðurstaðan er sú að nú eru engir kassar í aukaherberginu lengur. Það er galtómt! Búin að koma öllu fyrir á sinn stað og er bara harla ánægð með það!


Hillur í bílskúrnum - þessar verða svo fullar af plastkössum :)

Hillur í þvottahúsi - alls konar drasl

Annað sjónahorn af hillum í þvottahúsi

Hillur í forstofu. Keypti líka körfur í hillurnar - nokkuð flott!

Körfurnar í þvottahúsinu. Er mjög ánægð með þær!

Svo hef ég verið að dunda mér við að setja jólaskrautið upp. Það er ekki mikið, en ég gæti trúað að ég eigi eftir að kaupa eitthvað meira þegar líður á aðventuna. Jólatréð keypti ég heima fyrir jólin í fyrra. Ákvað að hafa rautt þema þetta árið, mér finnst það passa vel við teppið í stofunni! Er líka búin að setja upp gardínur í stofuna, þá kom auðvitað í ljós að ég hafði verið aðeins of fljót á mér að setja "Drottinn blessi heimilið" upp fyrir ofan gluggana - stafirnir sjást ekki alveg nógu vel núna. En það verður bara að hafa það! Ég var mjög ánægð þegar ég fann dagatalakerti í Jysk (Rúmfatalagernum), ég hef alltaf keypt svoleiðis kerti á aðventu. Nú þarf ég bara að muna eftir að kveikja á því á hverjum degi :)

Kæru vinir - gleðilega aðventu, gangi ykkur vel við jólaundirbúninginn!

Stofan með krönsum í gluggum

Gamla góða jólatréð mitt sem ég gerði - fann meira að segja 35 ljósa seríu í það! Og svo auðvitað dagatalakertið og engillinn frá Kristiboðssambandinu

Aðventukransinn og jólasveinninn. Hér eru þrjú kerti fjólublá og eitt bleikt á aðventukransinum

Fallega hreindýrið úr Rúmfatalagernum. Mig langar í fleiri!

Og svo auðvitað jólatréð .....

.... jólaslaufan .....

.... og aðventuljósið í glugganum, beint fyrir ofan fjölskyldumyndirnar :)

Sunday 25 November 2012

Nýja, fallega heimilið mitt

Nú eru liðin ár og dagar síðan ég bloggaði síðast. Get víst ekki kennt neinu öðru um en leti og skorti á nennu, sem er auðvitað eitt og það sama. En nú er aldeilis tilefni til fagnaðar og bloggskrifa því konan er flutt í nýtt húsnæði!
     Frá því ég kom hingað hef ég búið í blokkaríbúð góðra safnaðarmeðlima sem voru svo yndisleg að lána mér íbúðina sína í nokkra mánuði. Sjálf búa þau í sumarhúsinu sínu um 30 km frá bænum. Eins og áður hefur komið fram í bloggi frá mér þá hef ég verið að bíða eftir raðhúsaíbúð sem er í byggingu. Samkvæmt upplýsingum frá leigusala þá var áætlað að íbúðin mín yrði tilbúin í janúar/febrúar. Í síðustu viku fékk ég hringingu frá leigusala sem sagði mér að íbúð hefði losnað. Þannig var að þau höfðu reynt að ná sambandi við konu sem átti að fá afhent núna í nóvember, en hún svaraði aldrei í síma. Loks heyrðu þau frá ættingjum konunnar og kom þá í ljós að blessunin hafði látist um tveimur vikum fyrr. Leigusalinn spurði mig hvort ég vildi íbúðina og að sjálfsögðu sagði ég já! Þetta er endaraðhús og því mun betur staðsett en það sem ég átti að fá í janúar. Undanfarna viku hef ég verið að undirbúa flutninga á fullu, kaupa húsgögn, láta tengja sjónvarp og internet, þrífa bæði nýja og eldra heimilið og svo auðvitað taka upp úr endalausum fjölda af kössum. Ég er afskaplega ánægð með íbúðina. Ég var heppin við húsgagnakaupin, fékk flott og góð húsgögn á afsláttarverði. Ég keypi sófasett, stofuborð og 2 önnur borð, 50" sjónvarp og sjónvarpstand, eldhúsborð og 4 stóla, 2 barstóla, borð í forstofu, Queen-size rúm, náttborð, skenk og kommóðu á 5400 kanadíska dollara, 675 þúsund íslenskar. Það finnst mér vel sloppið! Að auki hef ég svo auðvitað keypt ýmislegt annað, s.s. lampa, mottur og þess háttar en ég er mjög ánægð með árangurinn. Það verð ég að segja að húsgagnakaup eru ekki það skemmtilegasta sem ég geri svo ég er svo fegin að þetta er búið! Það eina sem ég á eftir að kaupa eru hillur og auka kommóða - og svo auðvitað rúm fyrir gestaherbergið! Mamma og pabbi, það verður komið í hús áður en þið komið í heimsókn!
     Ég er þegar búin að koma mér vel fyrir, myndirnar mínar komnar á veggina og allt í góðum gír. Ég er svo glöð að geta loksins notað mína hluti, s.s. eldhúsáhöld! Gerði mér ekki grein fyrir hversu mikið ég saknaði þeirra! Hér fyrir neðan getið þið séð myndir af herlegheitunum. Næstu helgi mun ég svo setja jóladótið upp og þá vonandi sýna ykkur fleiri myndir. Lifið heil!

Svefniherbergið fyrir flutninga

Stofan - sjónvarpsstandurinn, kassar ....

.... og svo sjónvarpið, ennþá í kassanum, sem og barstólarnir í tveimur kössum og lampar í einum!

Drasl í gestaherberginu - kassar og plast út um allt!

Stofan tilbúin - athugið að það er hægt að færa sjónvarpið til beggja hliða!

Fallega sófasettið mitt og þessi líka meiriháttar motta! Fékk púðana ókeypis með sófunum :)

Eldhúsið - öll eldhústæki fylgdu með. Og sjáið barstólana! Viðurinn í innréttingunni er Hickory

Séð úr stofu og inn í eldhús - einn einmanna eldhússtóll við hliðina á sjónvarpinu

Hér sjáið þið eldhúsborðið frá eldhúsinu

Betri mynd af eldhúsborði og út með ganginum. Allt þetta setti ég saman :)

Borð í forstofu með körfum - gott fyrir trefla, húfur, vettlinga og þess háttar. Tók mig langan tíma að setja þetta saman!

Útidyrahurðin og dyrnar út í bílskúr. Á borðinu er hitamælir, kuldinn úti í kvöld er -15 gráður :)

Séð inn með ganginum

Og lengra inn með ganginum

Er þetta ekki flott!?

Að sjálfsögðu blessar Drottinn heimilið - og Íslandsklukkan er á sínum stað!

Baðherbergið. Í speglinum sjáið þið að ég hef þegar sett upp klósettrúlluhaldarann!

Hitaveitusystemið - frekar hávært fyrirbæri! Og auðvitað þrifáhöldin - á eftir að setja hillur þarna

Þvottavél og þurrkari - fylgdi með - risastór fyrirbrigði! Snilld!

Svefniherbergið - risastórt rúm!

Skenkurinn - þarna ætla ég að setja fjölskyldumyndirnar :) Náttborðið er í hvarfi, rúmið er svo hátt!

Kommóðan

Rúmið og innbyggði fataskápurinn - á eftir að finna eitthvað til að setja á vegginn fyrir ofan rúmið!

Mesta draslið horfið úr gestaherberginu. Bara "nokkrir" kassar eftir :)