Monday 30 July 2012

Myndir frá fyrstu viku

Þá er komið að myndbirtingu - vildi frekar setja þær hér inn heldur en á Facebook. Sjáum til hvernig þetta virkar ......

....... júbb - allt í gúddí, sýnist mér. Kíkið á :)

Stofan á Einu og hálfu stræti vestur númer 1901, íbúð 301. Jú, strætið heitir 1 1/2 Avenue West - ég veit, hrikalega fyndið!

Þá er það eldhúsið með stóra ískápnum

Gestaherbergið með litla sæta sjónvarpinu

Baðherbergið með stóru sætu konunni í speglinum :)

Þvottaherbergið - þvottavél og þurrkari - það kemst sko mikið inn í þessi tæki!

Og svo auðvitað meyjardyngjan :)

Húsið að utan - bjútifúl!

Sjáið bara hvað fólkið í söfnuðinum hafði sett á skiltið fyrir utan kirkjuna!

Ritningarversið úr 12. kafla 1. Mósebókar segir: „Drottinn sagði við Abram: Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á." Aldeilis viðeigandi! :)

Nýja glæsikerran - fyrsti jeppinn sem ég hef átt, þó smár sé. Hyundai Santa Fe 2004 árg.

Lítur vel út, þessi elska, ekki satt?

Spurning um að fá sér einkanúmerið Sérann að framan :) Það eru nefnilega bara númer á bílum að aftan í henni Kanödu - númerið á þessum bíl er 630 IMJ

Friday 27 July 2012

Veðrið

Það fer okkur Íslendingum vel að tala um veðrið hvar sem við erum og hvert sem við komum. Sé mig því knúna til að segja örlítið frá veðurfarinu hér í Prince Albert um þessar mundir. Hér er í einu orði sagt heitt. Of heitt fyrir mig, allavega. Ég er svona "ekkiyfir20gráður" týpan. Allt þar yfir er of heitt, að mínu mati. Í dag stefnir í 25-26 stiga hita og um helgina nær hann upp í 28 gráður. Og til að bæta gráu ofan á svart þá er raki hér líka. Mikið á ég nú bágt! Ætla að vera mest megnis innandyra um helgina, eða fara á rúntinn í loftkældum bíl. Best að vera ekkert að láta sólina skína of mikið á sig - búin að kveikja í öxlunum á mér einu sinni þetta sumarið, fer varla að gera það aftur!

Wednesday 25 July 2012

The eagle has landed

Komin til Prince Albert, loksins. Ferðin gekk vel að mestu leyti, flugvélinni frá Toronto til Saskatoon seinkaði um tvo og hálfan tíma vegna þrumuveðurs en annars allt í gúddí. Lenti í Saskatoon upp úr kl. hálf tvö að staðartíma, þá var klukkan rúmlega hálf átta á Íslandi. Konan orðið svolítið þreytt. Donna og Twylla, tvær úr söfnuðinum, biðu eftir mér á flugvellinum, mér fannst auðvitað verst að þær höfðu þurft að bíða svona lengi eftir klerkinum. Gisti í Saskatoon yfir nótt en hélt svo af stað til Prince Albert þar sem ég er núna - loksins í netsambandi. Sit á nýju skrifstofunni minni sem er heldur stærri en heima - en mjög tómleg þessa stundina :) Og beint fyrir framan mig er hnattlíkan - best að fara og láta Ísland snúa að mér :)

Ég var hissa hvað það reyndist auðvelt að fá ýmsa pappíra. Strax við komuna til Toronto fór ég og talaði við fulltrúa á innflytjendaskrifstofunni og fékk dvalarleyfi til þriggja ára á staðnum. Tók ekki nema um 5 mínútur. Það eina sem fulltrúinn var að velta fyrir sér var hjúskaparstaða mín, þegar hann sá að ég var einhleyp þá spurði hann hvort prestar í lúthersku kirkjunni þyrftu að vera einhleypir eins og í kaþólsku kirkjunni! Ég sagði nei og bauð honum út að borða á staðnum! Í Saskatoon fór ég á skráningarskriftstofuna til að sækja um kennitölu. Ég hélt að hún myndi berast mér innan nokkurra daga en svo var aldeilis ekki - ég fékk hana strax! Svo nú er konan komin með dvalarleyfi og kennitölu - og á dagskránni í dag er að stofna reikning í banka og skoða bíla - vænti þess að vera búin að kaupa mér bíl eigi síðar en á föstudaginn! Hlutirnir gerast hratt í henni Kanödu :)

Íbúðin sem ég er í hér í Prince Albert er afskaplega notaleg. Allt til alls hérna. Lyfta, bílageymsla, þvottavél og þurrkari - bara öll þægindi! Og fyrir þau sem hafa áhyggjur af líkamlegu ásigkomulagi konunnar þá er meira að segja líkamsræktarsalur í húsinu! En þau sem þekkja mig vita betur, auðvitað fer ég aldrei þangað!

Eigendurnir eru sóknarnefndarformaðurinn og konan hans, þau eiga annað hús rétt fyrir utan bæinn sem þau nota mun meira en þetta. Ég fæ því að vera þarna í dágóðan tíma, allt þar til ég finn íbúð til að leigja. Þau voru ekki með sjónvarp í íbúðinni en að tilefni þess að ég mætti á staðinn keyptu þau lítið 20 tommu sjónvarp! Já, það er alveg stjanað við frúnna! Eins gott því ólympíuleikarnir eru um það bil að hefjast!

Ég mun formlega hefja störf í söfnuðinum þann 1. ágúst. Þessa viku ætla ég að nota til að kynna mér bæinn, næsta vika fer í að kynnast söfnuði og kirkju betur. Fyrsta messan er svo 5. ágúst. Þá verður kaffi eftir messu og ég er að spá í að skella í íslenskar pönnukökur! Eða nei, það verður að bíða betri tíma - uppgötva á meðan ég er hér að skrifa að pönnukökupannan er á bretti á leiðinni til Kanada! Well - bara næst!

Jæja, þá er að halda af stað og skoða bíla. Fæ smá aðstoð við það frá einum í söfnuðinum sem er bílaviðgerðarmaður. Já, alltaf gott að hafa góð sambönd allsstaðar :)

Saturday 21 July 2012

Síðustu dagarnir fyrir brottför

Það fer að koma að því. Íbúðin er seld, mótorhjól og bíll ekki, en faðir og klerkur búnir að fá umboð til sölu. Location: Ma og Pa. Departure: Mánudagur.

Annasamur tími að baki. Það er nú meira vesenið að flytja, hvað þá til Kanada. Búin að komast að því að það hefði verið miklu auðveldara að verða prestur í Noregi - en það er bara ekki eins spennandi! So what þó að þetta sé vesen - þetta er líka skemmtilegt! Tilhlökkun er í hjarta, enginn kvíði, þó ótrúlegt megi virðast. Gott fólk bíður í Prince Albert, Saskatchewan í Messiah Lutheran Church - og um leið kveð ég gott fólk hér á Íslandi.

Grái fiðringurinn gerir vart við sig á marga vegu. Ég bauð hann velkominn inn í mitt líf, hlustaði á hann og ákvað að fara eftir því sem hann stakk upp á. Eitthvað nýtt, eitthvað öðruvísi - eru einkunnarorð þessa fiðrings. Hljómar vel í mínum eyrum. Ég vona að ég muni einnig hlusta á hann síðar því þetta nýja og öðruvísi er alltaf mikilvægt. Einnig dirfska - vonandi á ég nóg af henni.

Verið sæl, öllsömul sem mig þekkið hér á landi - hlakka til að segja ykkur fleiri fréttir, í næsta skipti verður það frá Kanada. Bless bless, adieu, auf wiedersehen, goodbye, farvel!