Tuesday 30 July 2013

Eftirþankar um hjólatúrinn væna sumarið 2013

Fyrsta mótorhjólaferð mín hér í Kanada er nú liðin, fimm dagar af yndislegheitum á sléttum Saskatchewan og Alberta, sem og við hin fögru Klettafjöll. Ég ætla að deila með ykkur upplifun minni af ferðinni, hvað fór vel og hvað mætti betur fara í næstu ferð. Allar myndir úr ferðinni má sjá í albúmi á Facebook síðunni minni, ég leyfi þó tveimur að fylgja hér með.

Undirbúningur
Ég var búin að ákveða fyrir þó nokkru síðan að fara í mótorhjólaferð í lok júlí, strax á eftir dvöl minni á Íslandi. Áætlunin hlaut að sjálfsögðu byr undir báða vængi þegar ég lét verða að því að kaupa hjól í maí og ég ákvað að skella mér á sömu slóðir og ég fór fyrir um 3 árum síðan, til Klettafjallanna. Þá keyrði ég á bíl hluta þeirrar leiðar sem ég fór nú og hét því að hingað kæmi ég aftur síðar, og þá á hjóli. Loka ákvörðun um að halda af stað í þessa ferð núna var ekki tekin fyrr en tveimur dögum áður en ég lagði af stað. Ég kíkti á netið, kannaði leiðir, pantaði hótel og leit á veðurspána. Kvöldið fyrir brottför henti ég í tösku og svo var bara brunað af stað upp úr kl. 9, fimmtudaginn 25. júlí. Stefnan var tekin á Camrose í Alberta, síðan á Banff, þá Jasper/Hinton, svo Edmonton og loks heim aftur. Áætlunin sagði að alls yrðu þetta um 2200 km og það stóðst. Lengsti túrinn var síðasta daginn, tæpir 600 km, sá styðsti var tæplega 300 km.

Búnaðurinn (hjól og ég)
Ég þurfti ekkert að kíkja á hjólið fyrir ferðina, það er nánast eins og nýtt og því í topp standi. Það eina sem ég hafði áhyggjur af voru fótstigin. Ég átti eftir að kaupa mér "foot pegs", eða þrep til að hvíla fæturnar á því ég hafði fundið áður fyrir þreytu í fótum eftir lengri túra. Svona lítur þetta út núna:

Fótstigin

Það er mjög þreytandi eftir langa keyrslu að geta ekki hvílt fæturna á einhverju stærra og betra, þar að auki getur mikill vindur gert það að verkum að það er erfitt að halda fótunum á réttum stað. Ég þreyttist því stundum fljótar en ella og varð að stoppa oftar sökum þessa. Ætla að kippa þessu í lag fljótlega.
      Hvað mig varðar þá ákvað ég að vera í gore tex jakkanum mínum og í leðurskálmunum. Það reyndist góð ákvörðun. Það kom þó einu sinni fyrir að önnur leðurskálmin "opnaðist", þ.e. rennulásinn fór upp í vindi. Ekkert alvarlegt þó. Ég tók líka lokaða hjálminn, ekki þann opna, því ég vildi ekki lenda í grenjandi rigningu með opinn hjálm. Been there, done that! Það er alveg á hreinu að þegar ég fer í langar ferðir þá ætla ég að vera með lokaðan hjálm. Það bæði eykur öryggistilfinningu hjá mér og gerir mér einnig kleift að njóta betur útsýnis og alls þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Mér finnst stundum ef hratt er keyrt á þjóðvegum að ég geti ekki fylgst nógu vel með ef ég er með opinn hjálm. Regngallinn kom sér afskaplega vel, ég er ekkert smá ánægð með þau kaup hér um árið! Hann er ekki bara mjög góð vörn í regni heldur einnig öflugur vindgalli. 

Vegir
Allir vegir sem ég fór voru malbikaðir. Ég keyrði ekki fram á neinar meiriháttar framkvæmdir á vegum svo tafir voru fáar. Vegirnir sem ég keyrði voru að mestu leyti góðir. En það er alveg á hreinu að það er svo miklu skemmtilegra að keyra á minni þjóðvegum heldur en þeim stærri. Vissulega er hægt að keyra hraðar á stóru hraðbrautunum en traffíkin er stundum svo mikil að það er bara hundleiðinlegt! Leiðinlegasti vegurinn sem ég keyrði var þjóðvegur 2, milli Edmonton og Calgary. Ég keyrði hann frá Lacombe til Calgary (um 170 km). Þetta er þriggja akreina vegur  með alveg brjálaðri traffík. Hraðinn er mikill og ég átti fullt í fangi með að fylgjast með öllu, fylgja umferðinni og passa mig að gleyma ekki hvar ég átti að beygja. Að auki var mikið rok akkúrat þegar ég keyrði þarna og það bætti ekki aðstæður. Mikið var ég fegin þegar ég komst af þessum vegi! Mér leið best að keyra á vegum með einnig akrein í hvora átt. Það gat samt verið svolítið erfitt að mæta öllum trukkunum (þessum risastóru, sem við sjáum ekki á Íslandi!!) á slíkum vegum sökum hliðarvindsins sem af þeim kemur, en það vandist fljótt.

Hraði
Það er alltaf gaman að tala um hraða, ekki satt? En jafnframt er öruggast að segja sem minnst um hann, ekki rétt?? :) Ég var annars afskaplega góð í þessari ferð hvað hraða varðar. Ástæðan var fyrst og fremst sú að ég ætlaði mér ekki að vera nöppuð af löggunni, þá sérstaklega ekki í öðru fylki en heimafylkinu mínu. Á vegum með einni akrein í hvora átt er hámarkshraði 100 km. Á tveggja eða þriggja akreina vegum í hvora átt er 110 km hámarkshraði. Ég var ekki búin að vera lengi hér í Kanada þegar ég komst að því að fólk keyrir hér almennt um 10 km yfir leyfilegan hámarkshraða. Ég fylgdi yfirleitt hraða umferðarinnar sem var frá 110 km til 130 km. Þau sem keyra mótorhjól vita að kraftmeiri hjól liggja betur á frekar miklum hraða (jú, ég er ekki að bulla, þetta er satt!!!) - ég fann fljótt að hraðinn sem mér fannst bestur fyrir hjólið var 130 km (á stærri vegum). Og það fyndna var að ég elti lögguna á þeim hraða núna í dag á leiðinni heim! Svo ég var barasta ekkert að gera neitt ólöglegt :)

Veður
Áður en ég lagði af stað sá ég að hugsanlega myndi ég lenda í einhverri rigningu í ferðinni. Ég lét það auðvitað ekki stoppa mig. Ég hafði þó í huga að það að lenda í rigningu hér er ekki alveg það sama og að lenda í rigningu heima á Íslandi. Regnið hér getur verið alveg svakalegt! Þrumur og eldingar og alles. En ég var blessunarlega laus við það. Sólin skein við mér nánast alla daga, ekki fjórða daginn en þá rigndi bara smá. Hitinn var frá 15-25 gráður. Ég lenti líka stundum í þó nokkrum vindi en þar kemst Kanada samt ekki með tærnar þar sem Ísland hefur hælana!

Lengd túra
Ég passaði mig á að hjóla ekki of lengi í senn því ég fann að ég þurfti að hvíla fæturnar með reglulegu millibili. Venjulega keyrði ég ekki meira en 100 km án þess að stoppa. Þá stoppaði ég ca 10 mínútur, lengur um hádegi þegar ég nærðist. Á vegum er venjulega fullt af stoppustöðum en mér fannst gott að vera búin að skipuleggja stoppin áður en ég lagði af stað - þá vissi ég líka nákvæmlega hversu langt var á milli þeirra.

Hótel
Ég dvaldi þrjár nætur á hótelum. Öll voru alveg ágæt, það besta við þau að öll buðu upp á internet þjónustu í herbergjum. Það er auðvitað alveg ómissandi! Eitt þeirra var meira að segja með stæði í bílageymslu! Eins og áður sagði þá pantaði ég ekki hótel nema með 2 daga fyrirvara - það er allt svo auðvelt þegar bara er pantað fyrir eina manneskju! :) Besta "hótelið" var svo auðvitað heima hjá góðri vinkonu minni í Edmonton. Yndislegt alveg hreint!

Náttúra/dýralíf
Það besta við að vera á mótorhjóli er hin nána tenging við náttúruna. Það sannaði sig algerlega í þessari ferð. Mér fannst yndislegt að keyra bæði um slétturnar og með fjöllin mér við hlið. Hvert landslag hefur sinn sjarma.

Hvað er annað hægt en að dást af svona landslagi??

Bæði Banff og Jasper þjóðgarðarnir eru þekktir fyrir mikið dýralíf en ég sá ekki eitt einasta dýr á þessum slóðum fyrr en ég var að fara frá bænum Jasper - þá voru fullt af dádýrum við veginn sem dúlluðu sér í rólegheitum. Þess utan keyrði ég fram á tvo jarðíkorna sem skottuðust yfir veginn og rétt sluppu við að ég keyrði á þá! Drap auðvitað slatta af pöddum og fékk eina drekaflugu í fangið - en að öðru leyti var ég laus við dýrin. Hér í Kanada þarf alltaf að hafa varann á sér þegar keyrt er úti á vegum því villt dýr eru hér út um allt. Svei mér ef ég sakna þess ekki að hafa "bara" rollur til að hafa áhyggjur af! :)

Ástand í lok dags
Annar dagurinn var erfiðastur (Camrose - Banff) því þá var rokið mest og svo auðvitað hin leiðinlega hraðbraut 2 til Calgary. Ég var mjög þreytt í fótunum eftir þann dag. Besti dagurinn var sá styðsti, (Hinton - Edmonton), en líka vegna þess að ég var í regngallanum og varð því ekki eins mikið vör við vindinn. Alveg merkilegt hvað vindur getur valdið mikilli þreytu! Á öllum stöðunum sem ég gisti tók ég mér tíma til að fara í göngutúr og skoða staðina. Skemmtilegast var auðvitað að labba um Banff, þennan yndislega bæ, og njóta túristastemmningarinnar. Hitinn var samt aðeins of mikill fyrir mig, um 30 gráður - en ég lét mig hafa það!

Ýmislegt
Á hverju kvöldi kíkti ég á leiðina sem ég fór daginn eftir, skrifaði niður punkta sem ég hafði í tanktöskunni. Jú, ég var með GPS en stundum vísar þetta blessaða gps tæki á einhverja flókna leið (þótt það sé rétt stillt) og þá er nú betra að vita hvert ferðinni er heitið.
     Þau voru mörg sem spurðu mig hvort ég ætlaði virkilega að hjóla alla þessa leið ein. Satt er að ég hef aldrei hjóla svona langt ein, en ég hefði aldrei látið það stoppað mig. Það eru bæði kostir og gallar við að vera ein í hjólatúr. Kostirnir eru þeir að þú ræður þér sjálf og stjórnar algerlega ferðinni. Stoppin eru mun styttri en ella og líklega færri, og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af neinni annarri en sjálfri þér. Gallarnir eru þeir að það er miklu skemmtilegra að upplifa öll yndislegheitin við svona hjólaferðir með annarri manneskju, geta rætt saman um upplifelsin, bæði á meðan ferðinni stendur og eins eftir á. Og það er líka ákveðið öryggi í að hafa fleiri með sér. Ég mun klárlega fara í fleiri svona ferðir einsömul en ég hlakka líka til að fara í ferðir með vinkonum mínum að heiman sem vonandi eiga eftir að skreppa hingað "westur" og taka túr með mér.

Lokaþankar
Mikið er ég nú glöð að hafa farið í þessa ferð - hún var mun betri en ég hafði gert mér væntingar um! Hjólið var frábært - ekki feilpúst alla leiðina. Og ég lenti ekki í neinum erfiðleikum við neitt. Ég er strax farin að hugsa hvert ég vil fara næst. Ég mun þó ekki fara svona langa ferð aftur þetta sumar, en næsta sumar er skammt undan. Framundan er þrif á hjóli og svo fullt af smærri ferðum það sem eftir lifir sumars. Vá, hvað ég er heppin! :)