Tuesday 25 December 2012

Gleðileg jól í Kanada

Það er auðvitað ekkert eðlilegt hvað tíminn líður hratt! Fimm mánuðir liðnir síðan fætur mínir snertu fyrst kanadíska jörð á þessu ári og mér líður eins og það hafi verið í síðustu viku! Aðventan hefur vitaskuld flogið fram hjá á ógnarhraða og svei mér ef jólin gera það ekki líka!

Það var dásamlegt að upplifa aðventuna hér í Prince Albert. Kalt hefur verið í veðri, allt upp í -31 gráðu (-40 með vindkælingu) en öllu er hægt að venjast. Ég elska stöðugleikann í veðrinu. Hér er yfirleitt stillt veður og sólskin þó kalt sé. Það breytir öllu. Og vitið þið hvað? Ég þvoði bílinn minn fyrir um 5 vikum síðan og hann er ennþá alveg tandurhreinn! Ekkert slabb á götum, bara harður snjór. Og þó þau bæði salti hér og sandi þá verður bíllinn ekki skítugur (nema auðvitað þú farir út á þjóðvegina, sem ég geri sjaldan). Ég var því mjög ánægð með að þurfa ekki að jólahreingera bílinn blessaðan!

Kirkjulífið hefur verið fjölbreytilegt og öðruvísi en ég er vön. Engar skólaheimsóknir, auðvitað, en margt annað í staðinn. Ég fór á tvo jólafundi, annan með konum í kirkjunni minni og síðan konum í lútherskri kirkju í nálægum bæ. Yndislegar stundir. Ég var einnig upptekin við að heimsækja fólk í desember, fólk úr söfnuðinum sem flest er í eldri kantinum og kemst lítið út. Helgihaldið var öðruvísi. Fyrsta sunnudag í aðventu héldum við yndislega aðventumessu. Skreyting á kirkjunni og helgihaldið var tvinnað saman, lesnir voru ritningarlestrar og síðan upplýsandi textar um hin ýmsu jólaskraut sem minna á jólaboðskapinn. Og svo voru auðvitað jólalögin sungin. Annan sunnudag í aðventu klæddist ég hempu og kraga til að kynna söfnuðinn fyrir hefðbundnum íslenskum prestklæðum. Ég tónaði svo prefasíuna á íslensku og einnig blessunina. Þetta mæltist vel fyrir, mörg af eldri kynslóðinni höfðu á orði að þau mundu eftir prestum í þess háttar klæðum frá bernsku sinni. Hér hafa lútherskir prestar ekki klæðst hempum svo áratugum skiptir, skilst mér. Þriðja sunnudag í aðventu var svo helgileikur fluttur í guðsþjónustu af börnum í sunnudagaskólanum. Mjög skemmtilegt allt saman. Og þann fjórða í aðventu vorum við með Lessons and Carols stund í kirkjunni, að enskri fyrirmynd. Þar er skipst á að lesa ritningarlestra og syngja jólalög. Í gær, aðfangadag, var svo kertaljósastund kl. 19, alveg yndisleg stund sem tókst mjög vel. Full kirkja af fólki og mikill hátíðarblær yfir öllu. Engin messa í dag, jóladag. Það er ekki hefð fyrir því í söfnuðinum en því mun ég breyta á næsta ári. Mér finnst mjög mikilvægt að messa á jóladag og það skiptir mig engu þó að fáir mæti, þennan helga dag verður að halda hátíðilegan í kirkjunni, að mínu mati :)

Aðventan hefur verið mjög annasöm. Fullt af fólki leit við í kirkjunni síðustu tvær vikurnar fyrir jól og ég hafði ekki undan að taka við alls konar góðgæti frá þeim - allt heimabakað auðvitað. Ég skil ekki hvernig þessu góða fólki dettur í hug að gefa mér slíkt góðgæti, það mætti halda að ég liti út fyrir að vera vannærð! Sem betur fer hafa ýmsir aðstoðað mig við að grafa mig í gegnum þetta allt saman, alltaf gott að geta boðið fólki upp á gott bakkelsi :)

Dagurinn í dag, jóladagur hefur verið yndislegur. Ég svaf auðvitað langt frameftir því mér lá ekkert á að fara á fætur. Í gærkveldi eftir aðfangadagsstundina fór ég til Feher fjölskyldunnar og átti yndislega kvöldstund með þeim í rólegheitum og notalegheitum. Kom ekki heim fyrr en undir miðnætti, var þá svo þreytt að ég ákvað að fresta því að opna gjafirnar! Það hef ég aldrei gert áður! Þegar ég svo skaust út til að slökkva á útiljósaseríunni, hvað haldið þið að ég hafi fundið á hurðarhúninum? Jólasokk, fullan af góðgæti! Á kortinu stóð: Til Írisar frá jólasveininum. Strompurinn þinn er stíflaður. Ekki opna fyrr en á Jóladagsmorgun. Heyrði að þú hefðir verið góð á þessu ári! Yndislegt! Fyrsti jólasokkurinn minn - og ég kíkti auðvitað ekki í hann fyrr en í dag. Fyrir utan dyrnar var líka annar glaðningur, ískertastjaki í laginu eins og stjarna með litlu kerti í miðjunni. Dásamlegt! Svona er nú gott fólk í kringum mig :) Hér sjáið þið myndir af jólasokkinum, fyrir og eftir opinberun - og svo myndir af ískertastjakanum (sem auðvitað helst vel frosinn í þessum gaddi!).

Jólasokkur í fullri dýrð

Skilaboð frá sveinka

Innihaldið - í kassanum er lítið mótorhjól!

Ískertastjakinn

Stjarna og kerti

Þess má geta að þegar ég vaknaði í morgun þá skein sólin skært, það fyrsta sem ég sá þegar ég kom fram á gang var sólin sem skein í gegnum glerið á útidyrahurðinni og lýsti upp íbúðina. Hér sjáið þið myndir af þessu sem og sólinni hér fyrir utan:

Sól sól skín á mig

Ekkert ský á himni svo ég get ekki haldið áfram með vísuna!

Ég ákvað að fá mér ágætis morgunverð/hádegisverð áður en ég réðst á pakkana - það þýðir ekkert að kíkja á gjafir á fastandi maga! Uppáhaldið þessa dagana eru ávextir í ávaxtadýfu. Hér sjáið þið jóladagshádegisverðinn:

Skornir bananar og jarðaber - og jarðaberja og vanillu ávaxtadýfur!

Nammi namm! Síðan voru auðvitað pakkarnir opnaðir. Ég vil þó nefna að ég opnaði einn pakka í gær frá vinkonu minni Jennifer. Ég hafði lofað henni að opna hann á aðfangadagskvöld og stóð við það. Gjöfin kom mér mjög á óvart, hún hafði brennt borðbæn í lítið sjónvarpsborð, íslenska borðbæn sem ég hafði látið hana hafa fyrir skömmu. Alveg hreint frábær gjöf. Hér fyrir neðan sjáið þið hana sem og aðrar gjafir sem ég fékk - fullt af nammi bæði frá Íslandi og Kanada - ja, það verður ekki hollustunni fyrir að fara hér næstu vikur (eða daga!):

Þurfamaður ert þú mín sál ......... stórkostlegt!

Skyldi það vera jólahjól???

Nú er ég á leið í jólaboð til Gladys og Carl Faber. Yndisleg hjón sem hafa verið mér svo góð. Ég bakaði pönnukökur áðan og ætla að taka þær með mér til þeirra.

Gleðileg jól, kæru ættingjar og vinir. Jólahátíðin er ekki bundin stund, stað eða fólki - hún kemur með sinn árlega hátíðleikablæ jafnvel þó aðstæður okkar breytast. Mér hefur tekist vel að anda að mér hinum sanna jólaanda þessi jól þrátt fyrir að vera fjarri heimahögum. Það hefur kennt mér að jólin snúast ekki um hið ytra heldur hið innra. Og að sjálfsögðu hjálpar að vera umvafinn góðu fólki sem stöðugt kemur konunni á óvart! Hafið það gott - núna og alltaf!

No comments:

Post a Comment