Sunday 26 May 2013

Viðburðarík vika

Margt hefur drifið á daga konunnar í Prinsinum Alberti síðustu vikuna. Ég sé mig knúna til að deila þessum viðburðum með ykkur sem og myndum af öllum herlegheitunum.

Eins og alþjóð er kunnugt þá fjárfesti ég í mótorhjóli fyrir skömmu, Hondu 1300cc, 2007 módelið, ekið 4000 km. Fyrstu vikuna keyrði ég hjólið 600 km - um að gera að pumpa kílómetramælinn aðeins upp eftir nánast enga hreyfingu síðustu árin!

Hvíta hættan, fallega Hondan mín :)

Ég heimsótti ýmsa bæi hér í nágrenninu. Meðal annars fór ég með fjórum öðrum mótorhjólaköppum til að hitta fleiri í bæ um 90 km frá Prince Albert. Einn kappinn sem við fórum með var á svakalegu hjóli, svokölluðu Boss Hoss hjóli - kannski ætti frekar að kalla það eldflaug en hjól! Kíkið á:

Græna hættan! 

Hvílíki krafturinn í þessu hjóli! Svei mér ef það gengur ekki fyrir eldflaugabensíni!

Þið ættuð að prófa að hjóla fyrir aftan þennan grip! Þegar gæinn gaf því inn þá kom svartur reykur útundan því! Og hávaðinn!! Kíkið á þessa síðu, þá sjáið þið allt um þetta hjól: http://www.bosshoss.com/products.asp. Í hvert skipti sem við stoppuðum þá hópaðist fólk í kringum hjólið til að skoða það og dást af því. Honum fannst það nú ekki leiðinlegt, honum Dale! Hér fyrir neðan eru svo fleiri myndir úr þessari ferð:

Hér eru hjólin okkar sem komum frá Prince Albert - fyrir utan krá í Shell Lake þar sem við hittum annað hjólafólk. 

Einn ferðafélaganna, Cheri

Á annan í Hvítasunnu, á meðan sum ykkar voruð í hjólamessu á Íslandi, þá fór ég í ferð til Waskesiu, en það er þjóðgarður rétt utan við Prince Albert (um 90 km í burtu). Leiðin var dásamleg, mörg falleg vötn sem hægt var að stoppa við og njóta veðurblíðunnar. Hér eru myndir frá þeirri ferð:

Við Waskesiu vatn - dásamlegt alveg hreint! 

Ferðafélagarnir, Dennis og Gisele Neudorf

Ég á vafalaust eftir að sýna ykkur fleiri myndir frá öðrum hjólatúrum í sumar. Ég er aldeilis farin að hlakka til! Það sem er hvað erfiðast að venjast við að hjóla hér í Kanada er hitinn! Ég er ekki vön að hjóla í 20 stigum eða meira á Íslandi! Mörg sem ég þekki hafa hjólað erlendis, en það hef ég ekki gert áður (utan stuttra hjólatúra í Þýskalandi hér um árið :). Ég verð því að gefa mér tíma til að venjast hitanum svona fyrsta sumarið hér. Ég keypti mér opinn hjálm til að nota innanbæjar, en þegar ég hjólaði síðustu helgi þá notaði ég hann líka utanbæjar. Það var nú meiri munurinn! Vindur og sól beint í andlitið! Í ferðinni til Waskesiu þá áttaði ég mig ekki á því hvað sólin skein skært - kom heim með rautt nef, höku og kinnar! Verð að passa mig þegar hjólað er með opinn hjálm! :)

Á fimmtudaginn var komu svo loksins ástkæru foreldrar mínir til Prince Albert. Þau flugu frá Íslandi á miðvikudag, gistu eina nótt í Toronto og flugu svo til Saskatoon á fimmtudag. Þangað sótti ég þau á fimmtudagsmorgun. Mikið var nú ánægjulegt að fá þau! Við erum búin að eiga góða daga hér í bæ, veðrið ákvað að verða leiðinlegra en vikuna á undan, kannski tóku þau kuldann með sér, blessuð hjónin! En þetta lítur betur út þessa vikuna - sól og blíða og yfir 20 gráðum hvern dag. 

Íbúar í raðhúsahverfinu þar sem ég bý standa oft fyrir ýmsum uppákomum yfir sumarið. Sú fyrsta var í gærmorgun, laugardagsmorgun, þegar öllum íbúum var boðið í morgunverð við tvo bílskúra. Allir mættu með stóla og svo voru grillaðar pylsur (eða sausages) og steiktar pönnukökur, - ekta kanadískur morgunverður! Að sjálfsögðu fór ég með gömlu hjónin í þessa veislu - pabbi var svo hrifinn af þessum morgunverði að ég er búin að lofa honum að gera slíkt hið sama einhvern morguninn bara fyrir okkur þrjú! Hér sjáið þið nokkrar myndir af þessum viðburði:

Hjónin í miðju áti! 

Hluti af nágrönnum okkar. Veðrið var nú ekki það besta en miðað við íslenskar aðstæður, mjög gott!

Bæði mamma og pabbi hafa komið mér á óvart hvað varðar enskukunnáttu. Þau eru bara stórgóð í að tala ensku! En þeim gengur miklu betur að tala þegar ég er hvergi nærri! Þá treysta þau á sig sjálf, ekki mig - og auðvitað verður þetta bara ekkert mál!

Í morgun fórum við svo í messu. Allt fólkið var mjög spennt yfir að hitta þau og hreinlega kaffærðu hjónin í hlýlegheitum. Eftir messuna var kaffi og ég kom mömmu á óvart með því að bjóða upp á afmælisköku sem ég hafði pantað. Á henni stóð: Til hamingju með afmælið, elsku mamma. Svo sungum við afmælissönginn - en auðvitað á ensku! Hér sjáið þið myndir af þessu:

Íslendingarnir fyrir framan tertuna

Mamma blæs á kertin sjö - eitt fyrir hvern áratug!

Ein samsett mynd - konan með okkur mömmu á einni myndinni er Gladys Faber en hún átti afmæli í dag, svo við sungum líka afmælissönginn fyrir hana :)

Þessa vikuna ætlum við að taka því rólega, litla fjölskyldan, kanna bæinn, fara í göngutúra og gera annað skemmtilegt. Við mamma ætlum að kaupa blóm til að setja fyrir utan húsið til að vera svolítið í takt við nágrannana. Við pabbi ætlum að kíkja á hillur til að setja upp í bílskúrnum. Og svo ætlum við öll að pússa og bera á borðið og kollana sem ég fékk gefins og munu standa úti á palli þegar hann verður tilbúinn. Hér er því ýmislegt á döfinni eins og heyra má. Að sjálfsögðu mun ég svo troða nokkrum hjólaferðum inn á milli annarra verka!

Lifið heil!

Friday 17 May 2013

Long time no see!

Nú eru liðnir heilir 3 og hálfur mánuður síðan ég bloggaði síðast - það er auðvitað skömm að þessu! Ég hef ekkert mér til málsbóta - hér hefur verið nóg að gera og viðfangsefnin mörg. Efniviðinn vantaði því ekki, en nennan var víðs fjarri. Hún hefur nú snúið aftur, þó líklega aðeins tímabundið, en er á meðan er!

Vetur konungur ríkti óvenju lengi hér í Prinsinum Alberti, raunar í öllu Saskatchewan - og máske öllu Kanada! Snjórinn kom í lok október og hvarf ekki að fullu fyrr en í byrjun maí. Það þykir laaaangur tími hér á bæ. En um leið og hann hvarf þá kom góða veðrið. Í tvær vikur hefur nú sólin skinið, þessa vikuna hefur verið um 20 stiga hiti hvern dag og konan sem er nýbúin að kaupa sér mótorhjól er afskaplega glöð. Hér er hægt að hjóla um sveitir og sléttur í léttum klæðnaði og vera samt að kafna úr hita! Mikið er það nú ánægjuleg breyting frá hinu kalda Íslandi. Þessi helgi er svokölluð Langa Maí Helgin. Það tengist ekki Hvítasunnu því dagsetning hennar er breytileg. Langa Maí Helgin er hins vegar alltaf þriðja helgin í maí. Og nú hittir svo á að það er líka Hvítasunnuhelgin. Þessi helgi markar upphaf ferðalaga hjá Kanadabúum, sérstaklega þeim sem búa hér um slóðir. Fólk drífur sig til hinna mörgu vatna í norðri, sest jafnvel að í sumarbústöðum sínum það sem eftir lifir sumars. Ég skrapp í hjólatúr áðan og straumurinn út úr bænum var gífurlegur! Ætli ég væri ekki líka á leið í bústað ef ég ætti hann!

Það verður að segjast að þegar aðstæður breytast í lífi okkar mannfólksins þá erum við fljót að venjast nýjungunum. Ég hef aldrei verið sólarmanneskja en mikið er ég þakklát fyrir hlýja veðrið síðustu daga! Allt í einu er 15 gráður ekki nóg - ég er ekki ánægð fyrr en hitinn er komin upp í 20 gráður! Það eina sem mig vantar núna er að blessaðir verktakarnir sem byggðu húsið mitt klári nú að malbika innkeyrsluna og ganga frá í kringum húsin. Hér er allt umkringt mold og drullu (mest megnis skraufaþurri), og því fyllist allt fljótt af ryki. Mér er sagt að þetta verði klárað á svona einum til tveimur mánuðum svo ég verð víst að vera þolinmóð.

Á morgun, 18. maí (sem reyndar er nú runninn upp á Íslandi), heldur hún móðir mín upp á 70 ára afmælið sitt. Til hamingju, elsku mamma! Það hefði nú verið gaman að koma henni á óvart og birtast skyndilega í veislunni - en það er aðeins of langt til Íslands til að hægt sé að skreppa þangað! Þar að auki á ég fljótlega von á gamla settinu hingað til lands og þá höldum við bara okkar eigið partý!

Ég hlakka til sumarsins hér - einnig til sumarfrísins sem ég ætla að eyða á Íslandi, síðustu vikuna í júní og tvær fyrstu í júlí. Þá verður stuð! Þess má þó geta að konan nýtur sín afskaplega vel hér í Kanada og er ekkert á leiðinni heim aftur á næstunni (nema þá bara í sumarfríið). Mín bíða fjölmargir hjólatúrar um víðlendur Kanada. Hondan og ég verðum betri og betri vinir með hverjum deginum og ég á von á að við eyðum sem flestum stundum saman næstu vikur og mánuði.

Hafið það sem allra best kæru vinir. Vonandi verður sumarið gott og blessað hvað sem þið takið ykkur fyrir hendur!