Sunday 20 January 2013

Tölvuvandræði

Ég er stoltur eigandi Apple Macintosh tölvu og hef verið lengi. Það besta við þessa tölvutegund er að vírusar ná illa til þeirra. Stýrikerfið og virknin er mjög einföld og ég hef aldrei lent í neinum vandræðum með Mac-ana mína, hef ég þó átt fjórar. Þar til núna. Vandræðin hófust fyrir fjórum dögum síðan. Allt í einu varð tölvan óvenju hæggeng. Það skipti engu máli í hvaða forriti ég var, hvort ég var á netinu eða ekki, hvort ég var með eitt eða fleiri forrit í gangi - það tók allt bara skelfilega langan tíma. Ein mínúta að hugsa, ein mínúta virk, ein mínúta að hugsa ..... o.s.frv. Það tók mig um þrjú korter t.d. í gær að afrita texta í einu forriti, færa hann yfir í annað og vista. Þrjú korter! Í staðinn fyrir svona u.þ.b. eina mínútu. Ég reyndi ýmislegt sjálf áður en ég leitaði mér hjálpar. Ég kannaði plássið á diskinum. Ekkert athugavert þar, af 499 gígabætum voru 421 laus - aðeins rúmlega 77 í notkun. Ég tók rækilega til, fór í Disk Utilities og sannreyndi allt saman (tók eilífðar tíma!!) og ekkert athugavert fannst. Endaði með því að hringja í 1-800-My Apple - gaurinn sagði mér að henda einhverju út og í smá tíma varð tölvan hraðari. Síðan fór allt á sama veg. Í gær rétt tókst mér að semja prédikun sunnudagsins (sem ég venjulega geri ALDREI deginum fyrir messu) og vista á tölvukubb. Eilífðartími fór í þetta allt saman. Í dag reyndi ein vinkona mín að laga þetta en ekkert gekk. Ég hringdi aftur í eplaþjónustuna og að þessu sinni fékk ég að tala við Senior Assistant, svokallaðan VIP hjá þeim þarna í stóra eplinu. Hann reyndi allt sem hann gat - ætlaði jafnvel að endurhlaða allt saman (eða strauja gripinn) en það tókst ekki einu sinni! Tölvan sagði bara nei, pakkaði saman og fór í fýlu! Plan B er að fara til Saskatoon á morgun í Apple búð og fá aðstoð frá þeim. Ég er auðvitað alls ekki glöð með þetta því það þýðir að ég verð tölvulaus í einhverja daga - og það get ég bara alls ekki!! Hef komist að því að ég er með tölvufíkn á háu stigi!

En viti menn. Eftir að hafa talað við tölvugaurinn fyrir svona um einni klukkustund síðan þá ræsti ég tölvuna á ný, bara svona til að kanna hvort ég gæti kannski kíkt á póstinn minn, ef fýlan væri nú farin af henni blessaðri og ég gæfi mér góðan tíma. Þess má geta að í öllum þessum hægagangi tölvunnar þá fraus hún aldrei alveg. Nema hvað, ég ræsti hana (það tók dálítinn tíma), fór á netið og allt í einu var bara allt í lagi með gripinn! Ég veit ekkert hvort hún er orðin fullkomlega heilbrigð aftur, eða hvort ég fæ aðeins að njóta hennar tímabundið í þessu líka góða skapi! Ég dreif mig auðvitað og bloggaði smá bara svona til að láta ykkur öll vita að ef þið sjáið mig ekki mikið á netinu, facebook eða bara einhvers staðar í tölvuheiminum, þá er tölvan mín líkast til farin í fýlu aftur. Ég er farin að halda að hún sé haldin illum anda - og að mér hafi tímabundið (vonandi alveg) tekist að reka hann út! Við sjáum til. Má vera að þetta haldist gott - ef ekki, þá er ég sannarlega á leið til Saskatoon á morgun!

Svona rétt í lokin: Þið þarna PC notendur - það þýðir ekkert að segja mér að snúa mér að PC tölvum þó ég hafi lent í þessu basli. Mac-ar eru og verða alltaf bestu tölvurnar! Og hana nú!!!

No comments:

Post a Comment