Wednesday 25 July 2012

The eagle has landed

Komin til Prince Albert, loksins. Ferðin gekk vel að mestu leyti, flugvélinni frá Toronto til Saskatoon seinkaði um tvo og hálfan tíma vegna þrumuveðurs en annars allt í gúddí. Lenti í Saskatoon upp úr kl. hálf tvö að staðartíma, þá var klukkan rúmlega hálf átta á Íslandi. Konan orðið svolítið þreytt. Donna og Twylla, tvær úr söfnuðinum, biðu eftir mér á flugvellinum, mér fannst auðvitað verst að þær höfðu þurft að bíða svona lengi eftir klerkinum. Gisti í Saskatoon yfir nótt en hélt svo af stað til Prince Albert þar sem ég er núna - loksins í netsambandi. Sit á nýju skrifstofunni minni sem er heldur stærri en heima - en mjög tómleg þessa stundina :) Og beint fyrir framan mig er hnattlíkan - best að fara og láta Ísland snúa að mér :)

Ég var hissa hvað það reyndist auðvelt að fá ýmsa pappíra. Strax við komuna til Toronto fór ég og talaði við fulltrúa á innflytjendaskrifstofunni og fékk dvalarleyfi til þriggja ára á staðnum. Tók ekki nema um 5 mínútur. Það eina sem fulltrúinn var að velta fyrir sér var hjúskaparstaða mín, þegar hann sá að ég var einhleyp þá spurði hann hvort prestar í lúthersku kirkjunni þyrftu að vera einhleypir eins og í kaþólsku kirkjunni! Ég sagði nei og bauð honum út að borða á staðnum! Í Saskatoon fór ég á skráningarskriftstofuna til að sækja um kennitölu. Ég hélt að hún myndi berast mér innan nokkurra daga en svo var aldeilis ekki - ég fékk hana strax! Svo nú er konan komin með dvalarleyfi og kennitölu - og á dagskránni í dag er að stofna reikning í banka og skoða bíla - vænti þess að vera búin að kaupa mér bíl eigi síðar en á föstudaginn! Hlutirnir gerast hratt í henni Kanödu :)

Íbúðin sem ég er í hér í Prince Albert er afskaplega notaleg. Allt til alls hérna. Lyfta, bílageymsla, þvottavél og þurrkari - bara öll þægindi! Og fyrir þau sem hafa áhyggjur af líkamlegu ásigkomulagi konunnar þá er meira að segja líkamsræktarsalur í húsinu! En þau sem þekkja mig vita betur, auðvitað fer ég aldrei þangað!

Eigendurnir eru sóknarnefndarformaðurinn og konan hans, þau eiga annað hús rétt fyrir utan bæinn sem þau nota mun meira en þetta. Ég fæ því að vera þarna í dágóðan tíma, allt þar til ég finn íbúð til að leigja. Þau voru ekki með sjónvarp í íbúðinni en að tilefni þess að ég mætti á staðinn keyptu þau lítið 20 tommu sjónvarp! Já, það er alveg stjanað við frúnna! Eins gott því ólympíuleikarnir eru um það bil að hefjast!

Ég mun formlega hefja störf í söfnuðinum þann 1. ágúst. Þessa viku ætla ég að nota til að kynna mér bæinn, næsta vika fer í að kynnast söfnuði og kirkju betur. Fyrsta messan er svo 5. ágúst. Þá verður kaffi eftir messu og ég er að spá í að skella í íslenskar pönnukökur! Eða nei, það verður að bíða betri tíma - uppgötva á meðan ég er hér að skrifa að pönnukökupannan er á bretti á leiðinni til Kanada! Well - bara næst!

Jæja, þá er að halda af stað og skoða bíla. Fæ smá aðstoð við það frá einum í söfnuðinum sem er bílaviðgerðarmaður. Já, alltaf gott að hafa góð sambönd allsstaðar :)

13 comments:

  1. Gott að heyra að allt hafi gengið upp ;O)
    Gangi þér vel við bílakaupin vinkona :O)
    Kíktu á hjól í leiðinni híhíhí
    Heyrumst sem fyrst,
    Kv,
    Jómfrúin

    ReplyDelete
  2. En gaman að fá að fylgjast með þér í Kanada. Ég er viss um að ólympíuleikarnir kveikja í þér að smella þér í líkamsræktarsalinn... ég veit fyrir víst að þú átt það til að láta sjá þig á svoleiðis stöðum :)
    Bestu kveðjur
    Erna Margrét

    ReplyDelete
  3. Gott að heyra af þér! Gangi þér vel ;-)!
    kv. Jón Ómar

    ReplyDelete
  4. Snilld, gott að heyra og ég er sammála Siggu með að skoða hjól í leiðinni :-)

    ReplyDelete
  5. Gott að allt hefur gengið vel. Aldrei að segja aldrei - hver veit nema þú verðir komin á fullt í líkamsræktina áður en langt um líður. Gangi þér vel í bílakaupunum. Hlakka til að heyra hvernig fyrsta messan gekk. :0)
    Kveðja,
    Lísa María

    ReplyDelete
  6. Gangi þér vel á nýja staðnum Íris mín og í nýja starfinu, það vereður gaman að fylgjast með þér ;)

    ReplyDelete
  7. Kanada kerfið rokkar feitt!!! Til hamingju með frábæra lendingu kæra vinkona

    ReplyDelete
  8. Þeir eru snöggir að þessu Kanadamenn. Ég er viss um að Þráinn les þetta hinum megin Atlantshafsins og nagar sig í handarbökin :)

    Hafðu það gott og það verður gaman að fylgjast með þér :)

    ReplyDelete
  9. Gott að vita að allt hefur gengið vel til þessa. Megi svo áfram vera. Kv. Agnes M. Sig.

    ReplyDelete
  10. Gaman að heyra að allt gengur vel Íris. Kanada tekur greinilega vel á móti þér. Gangi þér vel í starfinu þínu. Kv. Nanna Guðný.

    ReplyDelete
  11. Gangi þér vel Íris mín! Kv. Sigríður

    ReplyDelete
  12. Dugleg ertu, haltu áfram blogga og leyfa okkur að fylgast með þér

    ReplyDelete