Monday 1 October 2012

Hugmyndaríkur æskulýður (og svo miklu meira)

Ég sagði ykkur frá því fyrir nokkru að ég fór á æskulýðsmót í ágúst Saskatoon með 12 unglingum úr Messiah kirkjunni. Nú um helgina var guðsþjónusta í kirkjunni sem þessir krakkar sáu um ásamt mér og öðrum æskulýðsleiðtoga. Við byrjuðum undirbúninginn fyrir um tveimur vikum og hittumst alls þrisvar. Ég var aldeilis undrandi á þessum fundum yfir ótrúlegu hugmyndarflugi þessarra frábæru krakka. Þau skipulögðu allt sjálf, spiluðu undir og leiddu sönginn, prédikuðu, gerðu kynningarvídeó og barasta allt saman. Mitt hlutverk í guðsþjónustunni var einfalt: Ég spilaði á gítar :) Ég segi með sanni og án þess að ýkja að ég hef aldrei áður undirbúið æskulýðsguðsþjónustu með svona flottum hópi. Ég hlakka til að vera með þeim í æskulýðsstarfinu í vetur. Umsjón með því hefur hún Belinda, frábær leiðtogi sem kom með okkur til Saskatoon. Já, það verður stuð hjá okkur í vetur! :)
Hópurinn frábæri - öll í stuttermabolum sem þau sjálf máluðu á. Ef þið skoðið myndina vel þá sjáið þið glitta í höfuðið á mér þarna bakvið :)


Fyrir viku síðan, mánudaginn 24. september, kom dótið mitt loksins frá Íslandi. Það tók ekki nema tvo mánuði - ekki nema! Nú er allt í kössum hjá mér. Sumir eru inni í íbúðinni, aðrir í geymslu sem er inn af svölunum. Kíkið á:



Nú get ég auðvitað ekki beðið eftir því að íbúðin mín verði tilbúin. Ég er búin að taka nokkrar myndir í viðbót af framkvæmdum við raðhúsin. Mér er sagt að nokkrar verði teknar í notkun núna í október og að framkvæmdirnar séu á undan áætlun. Það eru auðvitað alveg dásamlegar fréttir! Ég set því markið á janúar og vona það besta. Nýjustu myndir af framkvæmdum:




Veðrið er búið að leika við okkur hér í Prince Albert. Um helgina fór hitinn í 25 gráður! Heimafólk segir þetta óvenjugott veðurfar miðað við lok september. Hitastigið þessa vikuna mun þó lækka þó nokkuð, einnig er spáð rigningu. Ég notaði því tækifærið í dag, mánudag, til að taka boði eins safnaðarmeðlims, Don Moriarty, sem fyrir nokkru síðan bauð mér að hjóla á mótorhjólinu sínu. Ég hefði auðvitað getað tekið þessu góða boði miklu fyrr en mér leið einhvern veginn ekki vel með það, að hjóla á annarra manna hjóli um byggðir Kanada. En ég lét slag standa í dag og fór í hjólatúr. Það get ég sagt ykkur, kæru vinir, að ég gerði mér bara alls ekki grein fyrir hversu mikið ég saknaði þess að hjóla! Ég hjólaði um 50 km út fyrir bæinn, heimsótti vinkonu hér í bæ, krúsaði um bæinn og lét mér líða vel í 16 stiga hitanum sem lá yfir öllu. Ég klæddi mig eins og ég er vön að klæða mig heima og ég var alveg að kafna úr hita! Áður en ég kaupi mér hjól á næsta ári þarf ég líka að fjárfesta í léttari mótorhjólaklæðnaði, það er nokkuð ljóst! Gripurinn milli fóta minna í dag var Honda Goldwing, einn með öllu (GPS, Cruise Control, útvarpi, hita í sæti og handföngum - og bara alles!). Hér sjáið þið fákinn:




Flottur litur :) Hver veit nema ég eigi eftir að prófa þetta flotta hjól aftur. Framundan er margt skemmtilegt, næstu helgi er þakkargjörðarhátíð í Kanada, mánuði fyrr en í Bandaríkjunum. Nóg að gera við undirbúning guðsþjónustu. Síðan verð ég líka með hjónavígslu á laugardaginn. Alltaf gaman í henni Kanödu :)

No comments:

Post a Comment