Saturday 6 October 2012

Hrokafulla íslenska bílastelpan

Nú þegar niðurstaða er komin í málið þá hef ég ákveðið að tjá mig um það. Hvaða mál?? Róleg, kæra hjörð - þið komist fljótt að því.

Eins og glöggir blogg-lesendur muna þá minntist ég á við upphaf veru minnar hér í Kanada að ég þyrfti að fá nýtt ökurskírteini í Saskatchewan fylki. Ég fékk að vita að íslenska skírteinið mitt væri aðeins gilt í þrjá mánuði og innan þess tíma yrði ég að taka skriflegt og verklegt ökupróf. Hvílík vesen! Konan er búin að vera með ökupróf í 24 ár og þarf að taka það aftur hér í Prince Albert! Bull og vitleysa!

Þessi tvö próf lágu svo eins og ferlíki á bakinu á mér í um rúman mánuð. Þá ákvað ég að láta til skara skríða og taka skriflega prófið. Ég játa fúslega að ekkert hér í Kanada olli mér eins miklum áhyggjum eins og þetta blessaða ökupróf! Sem betur fer gekk það skriflega mjög vel. Ég sveif í gegn og sjálfstraustið óx á ný. Í kjölfarið skráði ég mig í verklega ökuprófið nokkrum dögum síðar, full öryggis um að ég myndi nú fljúga í gegnum það líka. Því miður gerði ég mér ekki grein fyrir, þrátt fyrir að hafa lesið ökubókina fram og tilbaka, að þau hér í Kanada gera ýmsa hluti öðruvísi en við á Íslandi. Fyrir það fyrsta þá eru engar línur á götunum sem segja til um hvar á að stoppa við stöðvunarskyldu. Viðmiðið er að fara ekki framar en gangstéttarnar eða stöðvunarskyldan. Vissi íslenska konan þetta? Nei. Í öðru lagi þá eru þeir afskaplega uppteknir af hinu svokölluðu "sholder check" þegar skipt er um akgrein eða tekin beygja til að fyrirbyggja að blindi punkturinn verði til trafala. Í þriðja lagi þarf ökumaður hér að hafa í huga að ef beygt er til vinstri yfir á tveggja akreina veg þá áttu að fara á vinstri akgrein. Ef þú beygir til vinstri inn á tveggja akreina einstefnugötu þá verðurðu að fara á vinstri akreinina, mátt alls ekki fara á þá hægri. Ef þú beygir út af tveggja akreina einstefnugötu til vinstri þá verðurðu að aka eins langt til vinstri og þú getur áður en þú beygir. Ef þú tekur hægri beygju inn á tveggja akreina götu þá verðurðu að fara á hægri akreinina þó að enginn bíll sé á vinstri akrein. Vissi íslenska konan þetta? Ónei. En sú sjálfsörugga mætti nú samt í verklega prófið, næstum viss um að hún myndi slá í gegn.

Prófdómarinn var miðaldra maður, mjög almennilegur, sem sagði ekkert á meðan prófinu stóð nema vísa mér til vegar. Mér fannst mér ganga rosalega vel. "Parallel parking" er mjög nauðsynleg geta hvers ökumanns í Ameríkunni og það var nú ekkert mál fyrir hana mína. Piece of carrot cake! Þegar ég svo bakkaði í stæðið við prófstöðina (alveg fullkomlega) sagði prófdómarinn við mig: „Fórstu ekki í neinn ökutíma áður en þú komst til mín?" „Nei," svaraði ég. Hann sagði: „Það sést. Ef ég væri að taka próf á Íslandi þá þyrfti ég að fara í ökutíma fyrst því ég þekki ekki reglurnar þar. Nú skalt þú fara í tíma hjá kennara einu sinni til tvisvar og koma svo aftur til okkar. Taktu þennan miða (hann rétti mér miða), láttu kennarann fá hann og hann mun sjá hvað þú flaskaðir á."

Það er skemmst frá því að segja að ég var gersamlega niðurbrotin eftir þetta. Sjálfstraustið brotnaði í þúsund mola og hrokafullu íslensku bílastelpunni leið eins og gólftusku á eftir. Ég, þessi líka frábæri ökumaður og mótorhjólakona, féll á verklegu ökuprófi! Þvílík skömm!

Eftir tvo daga var ég búin að jafna mig, kyngja stoltinu og lúta í duftið. Ég hringdi í Ökuskóla Bev og pantaði tíma. Bev er yndisleg kona sem kenndi mér á kerfið hér í Saskatchewan. Ég fór tvisvar til hennar og pantaði svo aftur tíma í verklegt próf. Nóttina á undan svaf ég að ég held í tvo tíma, ég var svo stressuð.  Nú á föstudaginn mætti ég svo skjálfandi, algerlega viðbúin því að falla og þurfa að taka prófið í þriðja sinn. Prófdómarinn í þetta sinnið var maður á miðjum aldri, afskaplega kjaftaglaður og lipur. Á meðan prófinu stóð kjöftuðum við allan tímann, hann spurði um Ísland og sagði mér frá sjálfum sér. Ég átti fullt í fangi með að fylgjast með og gera rétt! Að prófi loknu sneri hann sér að mér og sagði. „Þetta var alveg frábært hjá þér, þú gerðir allt rétt. Venjulega þurfa þau sem fá ökupróf hér í fyrsta sinn, hvort sem um er að ræða unga eða eldri ökumenn, að endurnýja skírteinið eftir eitt ár, en ég ætla að láta þig hafa skírteini fyrir "vana ökumenn"."

Það verð ég að segja að svo þungu fargi var af mér létt eftir þetta að mér leið eins og ég hefði misst 20 kg! Nú er sú íslenska komin með löglegt Saskatchewan skírteini og þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu lengur. Það eina sem ég á eftir núna er að taka mótorhjólaprófið. Já, ég veit - it sucks! Ég er þegar búin að skrá mig í það skriflega því ég vil ljúka því af. Verklega prófið get ég ekki tekið fyrr en í vor þegar ég hef eignast mótorhjól. Nú hef ég lært af reynslunni - ég mun panta einn til tvo ökutíma hjá mótorhjólakennara til að undirbúa mig fyrir prófið - það megið þið bóka!

Þó að ég hafi í upphafi verið mjög svekkt yfir að þurfa að taka próf er ég afskaplega þakklát fyrir að hafa gert það. Ég lærði alveg heilan helling! Núna þegar ég keyri um göturnar þá er ég alltaf að spá í hvað ég er að gera og hvað það skiptir miklu máli að gera hlutina rétt. Ég er mjög meðvituð um alla aðra ökumenn í kringum mig, hvað þeir eru að gera rétt og hvað vitlaust. Þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að við þurfum öll að kíkja til ökukennara á svona 20-25 ára fresti til að fríska upp á kunnáttuna. Sigga mín, kæra vinkona - ég panta tíma hjá þér eftir 20 ár!

1 comment:

  1. Dugleg ertu Íris, Ég slapp við að taka bílprófið og meiraprófið og rútuprófið þegar ég flutti til Bretlands þó að þeir keyrðu í vinstri handar umferð. Ég hringdi bara í bresku umferðarstofuna og þar sagði maður að ég yrði að taka þetta allt aftur þar sem Island væri ekki á evrópska efnahagssvæðinu. Ég bað vinsamlegast að athuga þetta aðeins betur. Hann sagði, síðan sendu ísl skírteinið í pósti og þú færð hið breska að viku liðinni. Eina ökuprófið sem ég fór í Bretlandi var þegar ég var að sækja um vinnu hjá Tesco sem trukkabílsstjóri. Þá sat maður með mér í bilnum og tékkaði á mér. Ég mundi sem betur fer að er regla að stoppa alltaf fyrir gangandi vegfarenda og fleiri þannig reglur,
    Takk fyrir bloggið, það er gaman að fylgjast með þér, og dugnaðurinn í þér að gera þetta, ég segi nú ekki meira
    kær kveðja
    Stefán Ingi

    ReplyDelete